Bakteríur eru kjarnalausar lífverur á einfruma formi, þær eru ekki samansettar úr mörgum frumum eins og til dæmis maðurinn, en þær mynda samt samfélög margra baktería sem kallast kólóníur. Bakteríur eru líka stundum kallaðar dreifkjörnungar. Vegna þess að þær hafa engan afmarkaðan kjarna. Erfðaefni baktería er því ekki afmarkað frá öðrum frumulíffærum eins og í heilkjarna lífverum. Sömuleiðis hafa bakteríur örðuvísi skipan frumulíffæra miðað við heilkjarna lífverur. Í bakteríum er frumunni frekar skipt uppí stöðvar þar sem ákveðin verkefni fara fram eins og niðurbrot eða orkumyndun. Heilkjarna lífverur hafa mun afmarkaðri líffæri og sum þeirra eru jafnvel talin vera bakteríur að uppruna, eins og hvatberar og grænukorn.

Bakteríur skiptast upp í óteljandi flokka en þeir sem við þekkjum best eru kannski sýklar, en það eru sýkjandi bakteríur. Langflestar bakteríur í veröldinni eru ekki sýkjandi og í raun eru þær margar okkur lífsnauðsynlegar. Mannslíkaminn lifir til dæmis í góðu samlífi við ótal bakteríur, svo sem á húð og í meltingarvegi. Nýjustu rannsóknir benda jafnvel til þess að þetta samlífi spili veigameiri rullu en við gerðum okkur grein fyrir hvað varðar lífstílssjúkdóma og offitu.

Þó þær bakteríur sem við þekkjum best lifi við svipaðar aðstæður og maðurinn, þ.e.a.s. við 37°C og við sýrustig (ph) 7 þá telja þær minnsta hluta þeirra baktería sem til eru. Bakteríur finnast við aðstæður sem virðast ólífvænlegar, svo sem við mjög hátt hitastig, jafnvel 100°C. Sumar geta einnig lifa við mjög hátt seltustig eða allt að 30% seltu, til samanburðar er seltustig sjávar í kringum 3,5%. Að sama skapi geta bakteríur lifað við aðstæður sem við teljum eitraðar eins og við mjög háan styrk á brennisteini eða vetni og fleiri efnum. Þessir eiginleikar gera bakteríur mjög eftirsóttaverðar til að vinna með, en þær geta til dæmis hjálpað til við að eyða mengun frá slíkum efnum.