Bólga er svar líkamans við vefjaskemmd. Hún getur komið til vegna ýmiskonar skaðlegs áreitis á líkamann, til dæmis sýkla, skaddaðra frumna eða ertandi efna. Bólga er hluti af ósérhæfða ónæmiskerfinu sem er ólíkt sérhæfða ónæmiskerfinu að því leiti að það er ekki sértækt fyrir hvern sýkil.

Tilgangur bólgusvars er að losa líkamann við óæskileg efni eða sýkla og koma þannig í veg fyrir að þau nái að dreifa sér til annarra hluta líkamans.

Einkenni bólgu eru sársauki, hiti roði, þroti og í sumum tilfellum starfsmissir vefjarins, ef bólgan verður mjög mikil. Sársaukinn kemur til vegna skemmdra taugaþráða eða eiturefna frá sýklum en hiti, roði og þroti vegna aukins blóðmagns á bólgusvæðinu.

Líkaminn sér um að stýra bólgusvari og er mikilvægt að hann geri það rétt. Ef bólgusvörun er of lítil getur það leitt til þess að vefir skemmist en ef bólga er langvarandi getur hún leitt til fjölda sjúkdóma, til dæmis frjókornaofnæmis og liðagigtar.

Bólusvari má skipta í þrjú stig:

Æðavíkkun og aukið gegndræpi æða
Á þessi stigi víkka æðar til þess að meira blóð berist í skemmda vefinn. Æðarnar verða einnig gegndræpari sem gerir varnarþáttum, svo sem mótefnum, átfrumum og storknunarþáttum, kleift að komast að svæðinu. Hér kemur histamín við sögu en það stuðlar meðal annars að æðavíkkun og gegndræpi æða.

Átfrumur
Innan klukkustundar eftir að bólgusvar fer af stað mæta átfrumur á svæðið. Þær hafa það hlutverk að “éta” og eyða sýklinum en auk þess eyða þær í sumum tilfellum skemmdum vef og öðrum frumum sem hafa eyðilagst.

Viðgerð
Næst myndast gröftur á bólgusvæðinu nema um mjög litla bólgu sé að ræða. Hann inniheldur bæði lifandi og dauðar hvítfrumur auk leyfa af dauðum vef. Gröftur myndast þar til sýkingin hefur verið stöðvuð en ígerð getur myndast ef gröfturinn kemst ekki af bólgusvæðinu.

Hér að neðan má sjá á myndrænan hátt hvernig bólga myndast í líkamanum.

inflammation01a

Heimildir: Vísindavefurinn og Wikipedia
Mynd: University of Illinois at Chicago