Bóluefni er samsett úr veiklaðri eða dauðri veiru eða bakteríu auk ónæmisglæða og er ætlað að kynna ónæmiskerfi líkamans fyrir viðkomandi sýkli til að verja líkamann gegn smiti í framtíðinni.

Við bólusetningu þegar bóluefninu er sprautað inní líkamann fer ónæmiskerfið í gang og finnur sýkingavaldinn, sem í tilfelli bólusetningar veldur ekki sýkingu. Þegar ónæmiskerfið finnur hann myndar það mótefni sem er sértækt gegn sýkingavaldinum. Mótefnið binst við veiruna eða bakteríuna og merkir þannig að ónæmiskerfið veit að það á að drepa og eyða viðkomandi sýkli. Ónæmisfrumurnar þekkja veiruna eða bakteríuna svo aftur ef hún kemst einhvern tímann inní líkamann seinna á lífsleiðinni, mynda strax mótefnið gegn henni og eyða áður en sýking á sér stað.

Það er misjafnt hvaða efni bóluefnið inniheldur. Þau innihalda alltaf einhvern hluta af veirunni eða
bakteríunni sem verið er að bólusetja fyrir auk efna sem hafa mismunandi tilgang:

  • Oft er svokallaður ónæmisglæðir í bóluefninu. Ónæmisglæðir er efni sem örvar ónæmiskerfið og gerir svarið því sterkara. Að auki heldur ónæmisglæðinn aftur af virka efninu svo það seytlar útí líkamann á lengri tíma sem gefur líkamanum meira svigrúm til að mynda ónæmi. Ónæmisglæðar sem notaðir eru í bóluefni í dag eru oftast einhvers konar ál-sölt, þ.e.a.s. ál í efnasambandi við til dæmis kalíum og súlfat en líkaminn skilar þessum efnum svo út innan nokkurra daga.
  • Rotvarnarefni eru yfirleitt talin óþörf í bóluefnum í dag en áður fyrr var notast við kvikasilfursefnablönduna tíómersal. Þetta efni er talið innihalda svo lítið kvikasilfur að það hefur ekki áhrif á líkamann en engu að síður er það ekki notað lengur í Evrópu eða Bandaríkjunum.
  • Efni til að viðhalda stöðugleika, oft notað til að vernda bóluefnið fyrir hitastigsbreytingum eða öðru slíku. Mismunandi efni eru notuð í þessum tilgangi og má þá nefna gelatín, sorbitol og aðrar sykrur eða prótín.
  • Ýruefni er notað til að halda öllum innihaldsefnunum saman. Oftast er notast við pólýsorbat 80 en það er einnig notað í matvæli í sama tilgangi.

Við framleiðslu og einangrun á bóluefnum er oft notast við egg, frumulínur eða erfðabreyttar lífverur. Fólk sem er með ofnæmi fyrir til dæmis eggjum eða einhverju innihaldsefna bóluefnanna gæti fengið ofnæmisviðbrögð eftir bólusetningu. Hjá flestum eru viðbrögðin við bólusetningu eins og smávægileg veikindi. En ástæðan fyrir því er að ónæmiskerfið er að bregðast við þessari gervisýkingu sem bóluefnið er. Veikindin eru þó bara smávægileg í samanburði við veikindin sem smit viðkomandi sýkla og veira geta haft í för með sér.