DNA

DNA (Deoxyribo-nucleic-acid) er erðfaefnið sem finnst í hverri einustu frumu. DNA samanstendur af bösunum guanin (G), adenin (A), cytosin (C) og thymin (T). Þessir basar raðast upp í röð sem myndar tvíþátta snúinn streng og við köllum DNA-helix. Strengurinn er gríðarlega langur en honum er pakkað saman á mjög skipulegan hátt inní kjarna heilkjörnunga eða í umfrymi dreifkjörnunga. Þegar búið er að pakka erfðaefninu svona vel saman er það komið á form sem kallast litningur og það er á því formi sem við sjáum erfðaefnið oftast á myndum. Bakteríulitningar eru þó miklu minni en litningar heilkjarnalífvera og langoftast á hringlaga formi.

Erfðaefnið geymir í raun uppskriftina að þeim sameindum sem við þurfum til að vera til og uppskriftirnar kallast gen. Útkoman eða afurð genanna er alltaf RNA sem er svo oftast þýtt yfir í prótín. Röð basanna ræður því hvernig amínósýrur mynda prótínin. Hver tákni fyrir eina amínósýru inniheldur 3 basa, það þýðir að erfðaefnið er lesið í þrenndum.

Erfðaefnið er þó aðeins af litlum hluta gen, en í manninum til dæmis eru bara u.þ.b. 30.000 prótín kóðandi gen. Margar raðir er að finna í erfðaefninu sem verða aldrei eiginleg gena-afurð. Til dæmis er mjög mikilvægur partur af DNA-inu stýrlar eða stjórnraðir. Það eru raðir sem stjórna því hvort og hversu mikið gen eru tjáð. Sumar raðir tákna litlar RNA sameindir sem fruman notar einnig til að stjórna magni gena-afurða. En svo er líka stór hluti erfðamengisins sem við vitum ekki nákvæmlega hvaða hlutverki gegnir eða hvort það gegni hlutverki yfir höfuð.