Fjörfiskur er í stuttu máli ósjálfráðir tímabundnir vöðvakippir, og eiga sér oftast stað í augnloki. Fjörfiskur er í langflestum tilfellum meinlaus, en getur verið frekar óþægilegur, eins og sennilega flestir lesendur Hvatans hafa upplifað.

Helstu ástæður þess að við fáum fjörfisk eru taldar vera, þreyta, streita og ofneysla koffíns eða áfengis. Helsta ráðið til að losna við fjörfisk er að passa sig á þessum áhættuþáttum, þ.e. fá nægan svefn, forðast streitu og drekka bæði kaffi og áfengi í hóflegu magni.

Fjörfiskur einkennist eins og áður segir af taugakippum, taugakippirnir virðast ekki fylgja neinum sérstöku takti og oft dugar að toga augnlokið til, til að stöðva kippina. Vegna þess að fjörfiskur er meinlaus og ekki ástand sem þarf nokkuð að hafa áhyggjur af hefur ekki verið lagt mikið púður í að skoða hvað veldur. Það er því að vissu leyti jákvætt hversu lítið er vitað um ástandið. Sé fjörfiskurinn hins vegar alveg að gera ykkur brjáluð gæti verið gott að byrja á því að minnka kaffidrykkju, fara fyrr að sofa og kúpla sig útúr stressvaldandi aðstæðum.

Þeir sem upplifa fjörfisk finnst þeir oft vera ansi áberandi og óttast jafnvel að líta út eins og klikkaður vísindamaður (því það er auðvitað ekkert verra). Það er þó mikill misskilningur og í myndbandinu sem sést hér má sjá hvernig fjörfiskur lítur raunverulega út og hversu erfitt er að greina hann sé maður ekki þeim mun nær auga einstaklingsins sem hann hrjáir.

Heimildir:
MedScape
MedlinePlus
Healthline