Frumdýr eru einfruma lífverur sem hafa sambærilega lifnaðarhætti og dýr. Almennt er stærð frumdýra 10-50 míkrómetrar en stærstu tegundirnar geta orðið allt að 1 mm. Frumdýr lifa við mjög fjölbreyttar aðstæður og má finna þau í bæði vatni og jarðvegi.

Frumdýr gegna mikilvægu hlutverki í vistkerfum jarðar. Þau eru meðal annars mikilvæg í rotnunarferlum, eru fæða fyrir ýmsa smáa hryggleysingja og eru aðalneytendur gerla og sveppa.

Frumdýr eru ekki eins saklaus og þau kunna að virðast í fyrstu en sum þeirra geta valdið sjúkdómum í mönnum og dýrum, til dæmis malaríu og svefnsýki.

Vísindamenn hafa lýst um 65 þúsund tegundum frumdýra en fjöldi tegunda er líklega töluvert meiri. Sumar tegundir lifa í sambúum, aðrar eru sníkjudýr og enn aðrar rándýr sem lifa til dæmis á bakteríum og þörungum.

Frumdýrum er skipt í fjóra meginflokka:

Slímdýr einkennast af því að þau færa sig úr stað og afla sér fæðu með svokölluðum skynfótum. Slímdýr, að undantekinni ættkvísl amaba, mynda skeljar sem hjúpa frumuna. Skeljarnar eru ólíkar að gerð en geta til dæmis verið úr kalki, líkt og skeljar götunga. Ummerki eftir götunga má meðal annars sjá í Dover á Englandi en hvítir krítarklettar Dover mynduðust einmitt þegar skeljalög dauðra götunga ummynduðust í krít.

Bifdýr eiga það sameiginlegt að hafa bifhár, ýmist alla ævi eða á fyrstu æviskeiðum. Bifhárin nota lífverurnar til að færa sig úr stað og til fæðuöflunar. Mörg bifdýr eru sníkjudýr og er algengt að þær lifi sníkjulífi á fiskum.

Svipudýr hafa svipu sem þau nota til að synda auk þess sem hún nýtist til fæðuöflunar. Mörg svipudýr lifa samlífi og eru oft sérhæfð að ákveðnum hýsli.

Gródýr eru sníkjudýr og er ekki óalgengt að þau þurfi fleiri en einn hýsil til að klára lífsferilinn. Eins og nafnið gefur til kynna mynda þau gró og sem notuð eru til að flytja lífveruna úr einum hýsli í annan. Gróin myndast þegar ein fruma margskiptist og margar litlar frumur verða til. Búsvæði gródýra eru í sjó, ferskvatni og jarðvegi. Frægasta gródýrið er líklega Plasmodium sem notar moskítóflugur sem millihýsil og veldur malaríu.

Heimildir:
Vísindavefurinn
Wikipedia