Klónun, í daglegu tali, er þegar einstaklingur verður til með því að setja tvílitna kjarna í eggfrumu, án kjarna, og koma þannig af stað fósturþroska. Það var á þennan hátt sem til dæmis kindin Dolly varð til. Klónar er einstaklingar sem hafa nákvæmlega sama erfðaefnið.

Fóstur verða til með samruna tveggja einlitna kynfrumna. Þegar þær renna saman verður úr ein tvílitna okfruma, sem hefur eiginleika til að mynda allar frumur líkamans. Með hverju þroskastiginu sem frumurnar taka minnkar geta þeirra til að mynda fleiri frumugerðir og að lokum festast þær í því hlutverki sem þær munu leika í líkamanum alla ævi og fæstar geta snúið til baka og öðlast hæfileikann til að mynda fleiri frumugerðir.

Þegar klónun heillar lífveru er framkvæmd eins og Dolly, er tekin fullþroska fruma úr líkamsvef, í tilfellu Dollyar var það þekjuvefur í júgri og úr henni var einangraður kjarni. Kjarnanum var svo komið fyrir inní eggfrumu sem búið var að fjarlægja kjarnann úr og þannig varð okfruman að Dolly til. Þarna var notast við kjarna úr frumu sem hafði þegar fengið skilgreint og afmarkað hlutverk og því voru fyrstu erfiðleikarnir að stilla kjarnann á núllpunkt til að gefa okfrumunni eiginleikann til að mynda allar mögulegar frumur líkamans. Þessar núllstillingar fóru fram áður en kjarnanum var komið fyrir í eggfrumunni og eru mjög flóknar og erfiðar. Þegar Dolly komst loks í heiminn var búið að yfirstíga helstu vandkvæðin en eins og kom í ljós síðar á æviskeiði Dollyar þá var erfðaefni hennar sennilega ekki fullkomlega núllstillt.

Klónanir og umræða um þær hafa vakið margar siðferðilegar og heimspekilegar spurningar, til dæmis hvort klónaður einstaklingur geymi sömu eiginleika og forveri hans/hennar. Þegar einstaklingur er klónaður kemur nefnilega miklu meira til en bara erfðaefnið, fyrst þarf eins og með alla aðra að fara fram meðganga og þroski ungviðis í fullorðinn einstakling. Þá geta menn velt fyrir sér hlutum eins og hvað skapar persónuleika okkar, er það erfðir eða umhverfi?

Klónunin sem líst er hér að ofan er sú skilgreining sem fólk sér almennt fyrir sér þegar talað er um klónanir og á hún við um klónun heilla lífvera. Þessi gerð klónanna er þó ekki notuð mikið, þó vissulega megi segja að eineggja fjölburar séu náttúrulegt afbrigði af klónun, enda geyma þeir allir sama erfðaefnið.

Klónanir eru þó mikið notaðar á rannsóknarstofum, en þá er ekki verið að klóna einstaklinga heldur er verið að klóna gen. Í þeim tilfellum er genið „einstaklingurinn“ sem er klónaður. Þá er genið tekið úr einum einstakling og sett inní annan einstakling. Oft er þetta gert til að framleiða mikið af afurð gensins og þá er genið sett inní lífveru sem vex hratt og framleiðir mikið af afurðinni. Þegar búið er að klóna genið inní nýjan einstakling er sá einstaklingur erfðabreyttur. Dæmi um þetta er framleiðsla ORF líftækni á vaxtaþættinum EGF í byggi. Þá er EGF genið tekið úr annarri lífveru og sett inní byggplöntuna til að láta hana framleiða efnið í miklum mæli.

Klónanir á genum eru mikið notaðar í vísindaheiminum en ólíklegt verður að teljast að margar rannsóknarstofu leggi púður í að reyna að klóna heila lífveru. Kvikmyndaheimurinn hefur oft ýtt undir þá trú hjá fólki að klónanir á mönnum séu stundaðar í löndum þar sem rýmri lagarammar eru en til dæmis á Íslandi. Rétt er að taka fram að Hvatinn telur frekar ólíklegt að klónanir á mönnum séu stundaðar nokkurs staðar í heiminum. Þekkingin og tæknin sem þarf til þess að klóna prímata er ennþá flóknari en að klóna kind og líklega myndu vísindamenn sem finna leiðina til að núllstilla erfðaefnið öðlast meiri frægð og auð við að nýta þessa þekkingu til að lækna eða koma í veg fyrir sjúkdóma en til að fjölga ákveðnum einstaklingum á jörðinni.

Lesið einnig:
Hvað er stofnfruma?
Hvað eru erfðabreyttar lífverur?

Heimildir:
Roslin Institute
University of Utah