Líffræðilegur fjölbreytileiki er breytileikinn meðal lífvera af öllum toga, þar með talið á landi og í sjó auk annarra öðrum vistkerfum. Líffræðilegur fjölbreytileiki er flóknari en hann kann að virðast í fyrstu en hann nær einnig yfir breytileika innan tegundar, milli tegunda og breytileika vistkerfa og búsvæðagerða.

Stöðugleiki líffræðilegs fjölbreytileika er gjarnan notaður sem mælikvarði á heilbrigði vistkerfa og er fjölbreytileiki innan tegunda mikilvægur fyrir þróun tegunda.

Líffræðilegur fjölbreytileiki er grundvöllurinn fyrir því að bæði náttúruleg og manngerð vistkerfi geti starfað eðlilega. Vistkerfi veita okkur mönnunum svokallaða vistkerfaþjónustu sem við áttum okkur oft ekki á. Vistkerfaþjónustan er margslungin en nærtækasta dæmið er líklega það að við fáum súrefnið sem við öndum að okkur frá ljóstillífandi lífverum sem á móti taka upp koltvísýring úr andrúmsloftinu.

Það gefur auga leið að með útdauða tegunda tapast líffræðilegur fjölbreytileiki. Það er margt sem getur ógnað líffræðilegum fjölbreytileika og er það flest af manna völdum. Hér að neðan má sjá nokkur dæmi um þætti sem geta orðið til þess að líffræðilegur fjölbreytileiki tapast.

Búsvæðaeyðing fylgir aukinni fólksfjölgun. Við byggjum brýr, höggvum skóga og búum til uppistöðulón og er óhjákvæmilegt að því fylgir búsvæðaeyðing fyrir fjölda lífvera.

Innfluttar og ágengar tegundir geta oft haft mikil áhrif á vistkerfi. Tegundir flytjast til dæmis á nýja staði með skipum, ballastvatni þeirra og stundum er þeim viljandi komið fyrir á nýjum stað. Í Ástralíu bárust kanínur til dæmis til landsins með Evrópubúm sem hafði hörmulegar afleiðingar fyrir flóru landsins.

Ofnýting landsvæða getur einnig haft slæmar afleiðingar fyrir líffræðilegan fjölbreytileika. Sem dæmi um ofnýtingu má nefna ofveiði á ákveðnum tegundum, ólöglega sölu á villtum dýrum og óhóflegt skógarhögg.

Síðast en ekki síst hafa loftslagsbreytingar áhrif á líffræðilegan fjölbreytileika. Talið er að hlýnun jarðar muni hafa víðtæk áhrif á lífríki um allan heim með hækkandi hitastigi og yfirborði sjávar.

Heimildir:
The Encyclopedia of Earth
Umhverfisstofnun Evrópu
Wikipedia