Ofnæmi er þegar ónæmiskerfið heldur að prótín sem eru inní líkamanum séu óæskileg og hættuleg og fer að eyða þeim. Þetta eru eðlileg varnarviðbrögð ónæmiskerfisins, því þetta er það sem kerfið gerir þegar við verðum lasin það þekkir prótín á veirum og bakteríum og eyðir þeim. Þegar um ofnæmi er að ræða er kerfið of virkt ef svo má segja og fer að ráðast á hluti sem gera okkur ekki mein.

Þegar við borðum þá innbyrðum við fullt af utanaðkomandi prótínum, sem ónæmiskerfið lætur í flestu tilfellum í friði. Það er í raun ekki að fullu skilgreint hvers vegna ónæmiskerfið bregst ekki við öllu sem við borðum en við höfum samt sem áður augljósan hag af því. Hjá fólki sem er með ofnæmi er ónæmiskerfið hins vegar búið að mynda mótefni gegn ákveðnum prótínum sem valda ofnæmi og setur af stað ónæmissvar.

Ofnæmisvaldurinn sem er kallaður ónæmisvaki getur verið tilkominn á margan hátt, hann getur komið inn með fæðu eða öndun en svo er líka til að hann sé hluti af eigin líkama og þá er talað um sjálfsofnæmi. Margir sjálfsofnæmissjúkdómar eru þekktir sem valda þá krónískum bólgum en þeim er haldið niðri með til dæmis ónæmisbælandi lyfjum. Dæmi um sjálfsofnæmissjúkdóma eru rauðir úlfar og Chron’s sjúkdómur.

Grundvöllur fyrir því að um ofnæmi sé að ræða er að ónæmisvakinn er prótín, það er það sem ónæmiskerfið þekkir og myndar mótefni gegn. Óþoli og ofnæmi er oft ruglað saman, en þegar um óþol er að ræða er það ekki ónæmiskerfið sem veldur óþægindunum heldur á líkaminn erfitt með að brjóta niður það sem veldur óþolinu. Dæmi um þetta er mjólkuróþol en þá á viðkomandi erfitt með að brjóta niður mjólkursykurinn eða laktósann en viðkomandi þolir þá mjólk þar sem laktósinn hefur þegar verið brotinn niður. Algengast er að fólk sé með óþol gagnvart sykrum en það er þó ekki algilt.

Þegar fólk glímir við óþol gagnvart ákveðnum matvælum skortir fólk ensímið sem brýtur niður ákveðin efni í matvælum. Venjulega framleiðum við þessi ensím sjálf og seitum þeim útí meltingarveginn þar sem þau nýtast til að brjóta fæðuna niður. Þegar óþol kemur upp hefur framleiðsla á ensímunum yfirleitt stöðvast eða hægt verulega á henni.