Prótín eru vinnueiningar frumna. Ef við ímyndum okkur að fruma sé samfélag þá gætum við sagt að prótínin eru fólkið sem byggir samfélagið. Prótín eru sérhæfð til sinna starfa, til dæmis eru ákveðin prótín sem sjá um að eftirmynda DNA svo til verða verði tvö eintök af erfðaefni þegar fruman ætlar að skipta sér. Það eru líka sérhæfð prótín sem passa uppá að erfðaefnið sé pakkað saman en ekki í belg og biðu í frumunni og einnig eru sérhæfð prótín sem sjá um að opna erfðaefnið þegar þörf er á að eftirmynda það eða umrita.

Allar frumur innihalda prótín, en mismikið samt. Til dæmis innihelda vöðvafrumur mjög mikið af prótíni því í þeim frumum eru prótínin actin og myosin sem framkvæma vöðvasamdrætti þegar við hreyfum okkur. Þegar vöðvarnir stækka þá fjölgar þessum prótínum.

Sérstök gerð prótína kallast ensím. En ensím eru prótín sem hvata efnahvörf. Það er nauðsynlegt fyrir allar frumur að vera með ensím, vegna þess að grunnur þess sem gerist í frumunum eru efnahvörf og ensímin stuðla að því að hraða efnahvörfum sem annars tækju miklu lengri tíma.

Grunneining prótína eru amínósýrur. Í lífheiminum er notast við 20 amínósýrur, þó til séu eitthvað í kringum 300 slíkar. Hver og ein amínósýra hefur ákveðna eiginleika og af eiginleikum amínósýranna ræðst eiginleiki prótínanna.

Dæmi um mismunandi eiginleika amínósýra er að sumar eru fituleysanlegar meðan aðrar eru vatnsleysanlegar. Sá hluti prótíns sem er samsettur úr fituleysanlegum amínósýrum er því líklegur til að vera staðsettur í frumuhimnu til dæmis (frumuhimnan er nokkurs konar fitulag). Samsetning amínósýranna í prótíninu er skrifuð í erfðaefnið (DNA-ið) en hver amínósýra er táknuð með þremur bösum, eða þremur stöfum í DNA-inu sem fruman les við umritun. Í einföldu máli má segja að eitt gen tákni eitt prótín. Þetta er þó ekki algilt, bæði vegna þess að stundum er loka-afurð gensins ekki prótín en líka vegna þess að frumurnar raða genaafurðunum mismunandi saman til að fá mismunandi prótín.