RNA (ribonucleic acid) er sameind sem miðlar upplýsingunum sem skráðar eru í erfðaefnið. RNA er mikilvægur hlekkur milli DNA, sem geymir allar upplýsingarnar, og prótíns, sem vinnur alla vinnuna inní frumunum. Til að hægt sé að koma upplýsingunum úr genunum yfir í vinnueiningarnar (prótín) þarf að umrita DNA-ið. Þegar DNA-ið er umritað eða tjáð er það afritað með smávægilegum breytingum og þá myndast sameindin RNA. Eins og kom fram í fróðleiksmolum Hvatans Hvað er DNA? og Hvað er prótín eru amínósýrurnar, sem byggja prótínið, hver og ein táknaðar með þremur sértækum DNA bösum. RNA-ið miðlar þessum táknum og er þannig notað til að þýða basana yfir í prótín.

RNA er mjög líkt DNA en munurinn liggur í sykruhópum sameindanna þar sem DNA hefur deoxyríbósa meðan RNA er með ríbósa. Eiginleikar sameindanna eru ekki þeir sömu, RNA myndar hina ýmsu strúktúra, en DNA-ið myndar tvíþátta helix. Þar sem RNA er yfirleitt á einþátta formi þá er það líka óstöðugra en DNA og hvarfast eða brotnar fljótt niður. Þegar DNA er umritað yfir í RNA þýðast basanir A (adenín) G (gúanín) og C (cýtósín) yfir í sömu basa en T (týmín) basinn breytist í U (úrasil).

Margar mismunandi týpur af RNA er til, sem bæði gegna mismunandi hlutverki og kallast mismunandi nöfnum. Algengast er þegar talað er um RNA að verið sé að vísa í mRNA (messenger RNA) en það er RNA sem fruman notar sem mót fyrir prótín myndunina. mRNA er flutt útúr kjarna, þar sem það er umritað, í umfrymið og í ríbósómin, en það eru einingar innan frumunnar þar sem þýðingin á sér stað, með öðrum orðum þar verða prótínin til. mRNA-inu er rennt í gegnum ríbósómið, þar sem það er lesið og samtímis parað við tRNA (transfer RNA) sem ber með sér amínósýrurnar. Hvaða amínósýra hangir á ræðst af þriggja basa táknanum á tRNA-inu. Þegar tRNA parast við mRNA í ríbósóminu sleppir tRNA-ið amínósýrunni og leggur hana þannig til í prótínið sem er að myndast.

Myndin hér að neðan sýnir hvernig mismunandi RNA sameindir vinna að því að búa til prótín.

protein synthesis

Auk mRNA og tRNA kemur rRNA mikið við sögu við þýðingu prótína, en rRNA er hluti af ríbósóminu og hjálpar meðal annars til við að hvata bindingu amínósýranna. Áður fyrr voru þessar þrjár gerðir RNA taldar einu RNA sameindirnar sem skiptu máli í frumunni en nýverið hafa uppgötvast fleiri sameindir sem gegna ýmsum örðum hlutverkum. Skal þar sérstaklega nefna miRNA (microRNA) sem gegnir hlutverki við að þagga tjáningu gena. Þau bindast þá á mRNA-ið og hindra þýðingu þeirra eða stuðla að niðurbroti.

Heimildir:
The RNA society
Vísindavefurinn
Diffen