Sykursýki er meðfætt eða áunnið ástand þar sem líkaminn getur ekki tekið unnið sykur úr blóði. Líkaminn fær orku úr matnum okkar sem er umbreytt í litlar meðhöndlanlegar sameindir áður en þær fá aðgang inní frumurnar okkar. Þegar frumurnar þurfa orku þá nýta þær fæðuna á formi sykrusameindarinnar glúkósa. Lykillinn að glúkósaupptöku frumnanna er hormónið insúlín, án þess verður engin upptaka á sykrum og sykurinn safnast því fyrir í blóðinu.

Í meginatriðum eru til tvær tegundir af sykursýki, týpa 1 og týpa 2. Þegar talað erum sykursýki týpu 1 er yfirleitt um meðfædda sykursýki að ræða þar sem lítið sem ekkert er framleitt af insúlíni í brisi einstaklingsins. Helsta meðferðin við slíkri sykursýki er insúlíngjöf, en einstaklingar sem glíma við þessa týpur þurfa að einnig að fylgjast vel með því hvað þeir borða og sykruð fæða er þar sérstaklega varhugaverð.

Sykursýki týpa 2, er einnig stundum kölluð áunnin sykursýki en hún kemur yfirleitt til seinna á lífsleiðinni. Þegar um týpu 2 er að ræða eru líkamsfrumur einstaklingsins orðnar ónæmar fyrir insúlíni svo þó insúlínið sé til staðar þá er glúkósanum ekki hleypt inní frumurnar. Helsta meðferð við sykursýki týpu tvö er strangt mataræði og almennar lífstílsbreytingar. Þar spilar hreyfing stórt hlutverk, ásamt mataræðinu, og stundum ganga einkenni sykursýkinnar jafnvel til baka. Þó oft sé talað um áunna sykursýki þá er það helst til einfölduð mynd af sjúkdómnum því erfðir spila þar mjög stórt hlutverk sem og aldur en að sjálfsögðu hefur lífstíll einnig áhrif.

Hvort sem um týpu 1 eða 2 er að ræða þá er sameiginlegt einkenni sykursýkinnar að sykur safnast upp í blóðinu, bæði vegna þess að sykurinn er ekki tekinn upp en að auki vegna þess að insúlín temprar losun auka glúkósa úr lifur, en sú temprun er þá væntanlega ekki til staðar ef insúlínið vantar eða það er ekki skynjað. Of mikill sykur í blóði er hættulegt fyrir líkamann og ómeðhöndluð sykursýki eykur álagið á hjarta- og æðakerfið og getur leitt til taugaskemmda, nýrnaskemmda eða skemmda á æðakerfinu. Sem dæmi eru blinda og útlimamissir þónokkuð algengur fylgikvilli ómeðhöndlaðrar sykrusýki en það orsakast m.a. af skemmdum í æðakerfinu sem nær þá ekki að flytja súrefni og næringu til vefja sem á því þurfa að halda.

Það er sérstaklega mikilvægt fyrir þá sem glíma við sykursýki að passa uppá mataræðið og hreyfingu en með vaxandi neyslu þjóða heimsins fer sykursýki týpu 2 tilfellum einnig fjölgandi. Það er því best að byrja strax að huga að fyrirbyggjandi aðgerðum með betra mataræði og aukinni hreyfingu.

Diabetes Reasearch
Doktor.is
Landspítali, háskólasjúkrahús
Wikipedia
Vísindavefurinn