Tegund er hópur einstaklinga sem hefur ákveðna eiginleika sem greinir þá frá öðrum hópi einstaklinga. Hugtakið er notað til að aðskilja hópa dýra, plantna, baktería eða annarra lifandi eininga frá öðrum hópum. Eitt helsta atriðið sem notast er við til að skilgreina líffræðilega tegund er að einstaklingar innan hópsins geta æxlast og eignast saman eðlileg og jafnframt frjó afkvæmi. Oft er þó notast við útlit einstaklinganna til að flokka þá sem eina tegund.

Í mörgum tilfellum er nokkuð augljóslega hægt að greina á milli tveggja tegunda bæði vegna útlits en einnig vegna þess að tvær tegundir geta ekki æxlast og eignast eðlileg afkvæmi. En þó eru til dæmi þar sem erfitt er að greina á milli. Dæmi um þetta geta verið hundategundir sem verða til við hundaræktun. Tegundin hundur geymir nú hópa sem hefðu möguleikann á því að æxlast en útlit þeirra og lífeðlisfræðilegir eiginleikar leiða til þess að einstaklingarnir velja að æxlast ekki útfyrir hópinn. Einnig finnast hópar innan hundategundarinnar sem geta ekki lengur æxlast saman, og líffræðilega má því segja að um tvær aðskildar tegundir sé að ræða.

Til að flækja málin ennþá meira eru til margar tegundir baktería, einfrumunga og plantna sem nýta sér ekki kynæxlun heldur fjölga sér með kynlausri æxlun. Við þessar aðstæður er ekki hægt að aðgreina hópanna byggt á því hvort þeir geta æxlast eða ekki. Áður fyrr var þá notast við margs konar útlitsleg og lífeðlisfræðileg próf sem skilgreindu einstaklingana í hópa. Sem dæmi má nefna að bakteríum er skipt í hópa sem kallast gram-jákvæðar og gram-neikvæðar bakteríur. Þessi flokkun byggir á því hvort bakteríurnar litast með sérstökum gram-lit. Í seinni tíð, með tilkomu betri tækni í sameindalíffræði, á borð við raðgreiningu erfðaefnisins, hefur komið í ljós að skyldleiki baktería liggur þvert á þessa flokkun. Þegar bakteríur eru flokkaðar í tegundir er yfirleitt notast við samanburð á erfðaefni sem hefur varðveist vel í gegnum þróun vegna mikilvægi þess fyrir lífveruna. Sama á við um aðrar lífverur sem notast við kynlausa æxlun, þá kemur sameindalíffræðin sér vel.

Biological_classification

Þróunartréð telur níu aðgreiningarstig, sem sjást á myndinni hér að ofan og eftir þessum stigum er hægt að teikna upp misdjúp ættartré til að sýna skyldleika líffræðilegra hópa. Í þróunartrénu er tegund dýpsta aðgreining sem hægt er að gera milli hópa en þó getur einnig verið aðgreining innan tegundar sem hefur ekki endilega fengið jafn mikið gildi, á því stigi getur verið um að ræða tegund sem er að myndast, samanber hundana. Annað dæmi um tegund sem er að myndast eða að klára að aðskiljast eru hestar og asnar. Þegar asni og hestur æxlast getur orðið til afkvæmi sem við köllum múlasna. Múlasni lifir eðlilegu lífi að öllu leiti nema því að hann hefur ekki tækifæri á að eignast afkvæmi. Jafnvel þó hann æxlist við annan múlasna, asna eða hest, þá myndar múlasninn ekki heilbrigðar kynfrumur og möguleikinn á frekari fjölgun er því ekki raunhæfur.

Hugtakið tegund getur því verið ansi flókið og skilin milli tegunda eru ekki endilega klippt og skorin. Eins og Snæbjörn Pálsson segir í svari sínu á vísindavefnum þá er hugtakið tilbúningur mannsins til að auðvelda okkur að hólfa niður líffræðileg fyrirbæri. Fyrirbærin eiga kannski ekki alltaf heima í hólfunum sem við búum til en flokkunin getur engu að síður verið gagnleg til að skilja það sem við erum að sjá.

Heimildir:

Vísindavefurinn
Wikipedia
Understanding Evolution