Þróun er þegar tegundir taka hægfara breytingum sem að lokum leiðir til myndun nýrra tegunda. Ástæða þróunar er það sem kallast náttúrulegt val en það þýðir að ákveðnir eiginleikar gera einstaklinga innan tegundar hæfari til að lifa, eignast afkvæmi og fjölga þannig tegundinni.

Náttúrulegt val er afleiðing þess að umhverfið setur tegundunum ákveðnar skorður. Ástæða þess að náttúrulegt val hefur þau áhrif sem það hefur er að einstaklingar innan sömu tegundar eru mishæfir, fjölga sér mishratt og eignast mismörg afkvæmi. Einstaklingur sem eignast 5 afkvæmi hefur 5 sinnum fleiri möguleika á að koma eiginleikum sínum til næstu kynslóðar en sá einstaklingur sem eignast bara 1 afkæmi.

Vegna þess að náttúrulegt val byggir á því að eiginleikar erfast til næstu kynslóðar tekur þróun rosalega langan tíma, sérstaklega hjá dýrategundum þar sem ævilengd er mikil, eins og hjá manninum.

Mjög gott dæmi um hvernig náttúrulegt val virkar er sigðkornablóðleysi (sickle cell anaemia). Sigðkornablóðleysi er erfðasjúkdómur sem stórnast af einu geni, en þar sem sjúkdómurinn er víkjandi þá þarf einstaklingur að vera með tvö gölluð eintök af geninu (frá föður og frá móður) til að fá sjúkdóminn. Þeir sem eru með sjúkdóminn mynda ekki eðlileg rauð blóðkorn, þau rifna auðveldlega og lögun þeirra gerir það að verkum að þau stífla auðveldlega háræðar. Þess vegna leiðir sjúkdómurinn oft til blóðleysis, vefjaskemmda og að lokum dauða snemma á æviskeiðinu. Þar af leiðandi eru arfhreinir einstaklingar ólíklegir til að eignast börn.

Einstaklingar sem eru arfblendnir um sjúkdóminn, þ.e. hafa eitt gallað eintak og eitt heilbrigt eintak framleiða bæði heilbrigð blóðkorn og óeðlileg blóðkorn. Þrátt fyrir það lifa arfblendnir einstaklingar þokkalega eðlilegu lífi, nema þeir upplifa óþægindi þegar þeir lenda í lágum súrefnisþrýstingi eins og hátt uppi í fjöllum.

Þar sem arfhreinir einstaklingar deyja yfirleitt áður en þeir komast á barneignaraldur er genið yfirleitt til staðar í mjög lágri tíðni meðal flestra þjóða. Hins vegar eru arfblendnir einstaklingar á svæðum þar sem malaría er landlæg betur varðir fyrir sjúkdómnum m.v. einstaklinga sem eru með tvö heilbrigð eintök. Óeðlilegu blóðkornin gera það að verkum að sýkillinn getur ekki fjölgað sér.

Þess vegna er sigðkornablóðleysis genið frekar algent þar sem malaría er landlæg er. Einstaklingar sem eru arfblendnir eru betur varðir fyrir malaríu, líklegri til að lifa hana af og eignast börn. Þarna er því einstaklega gott dæmi um hvernig náttúrulegt val togar í ákveðna eiginleika sem koma sér vel í ákveðnu umhverfi.

Í gegnum aldirnar hafa kraftar eins og þessir orsakað tilvist allra lífvera á jörðinni, það hefur tekið óheyrilega langan tíma og búið til óteljandi tegundir baktería, plantna og dýra sem við höfum ekki einu sinni hugmynd um að séu til eða hafi einhvern tíman verið til. Náttúran er ótrúlega áhrifamikil.