Vistkerfi er allar lífverur og allir umhverfisþættir sem finnast á ákveðnu afmörkuðu svæði. Afmarkaða svæðið getur verið ansi stórt og í raun er rökrétt að tala um allan heiminn sem eitt vistkerfi þar sem erfitt getur reynst að taka eitt vistkerfi úr samhengi við annað. Vistkerfið telur bæði lífverur innan kerfisins sem og ólífræn efni sem lífverurnar nota eða nota ekki. Fæðukeðja lífveranna sem kerfið byggja er því innbyggð í hvert vistkerfi. Að auki eru alls kyns umhverfisþættir sem hafa áhrif á vistkerfið eins og til dæmis veðrið.

Í hagræðingaskyni eru vistkerfi yfirleitt skilgreind útfrá ákveðnum svæðum eða ákveðnum lífverum þegar verið er að gera rannsóknir á þeim. Það gefur auga leið að rannsókn á öllum heiminum er mun erfiðari í framkvæmd en rannsókn á afmörkuðu svæði. Utanaðkomandi þættir geta haft áhrif á jafnvægi vistkerfisins, eins og skólp sem er dælt útí vistkerfið í miklu magni, til dæmis í Þingvallavatn. Með því breytist samsetning næringarefna í vatninu, sumar lífverur fá því meiri næringu en áður og hjá þeim verður offjölgun meðan aðrar lífverur fá minni næringu en áður og þeim fækkar. Þegar eitthvað slíkt á sér stað er talað um að jafnvægi vistkerfisins hafi verið raskað.

Vistkerfi hverrar tegundar hefur ákveðin takmörk. Ákjósanlegasta vistkerfi hverrar tegundar er þannig samsett að tegundin getur hámarkað fjölda sinn og stærð, en báðir þessir þættir takmarkast af fæðuframboði og makavali. Ef of margir einstaklingar af tegundinni eru inní vistkerfinu þá minnkar framboðið á fæðu og einstaklingarnir verða færri og/eða minni. Ef einstaklingarnir eru of fáir, þá fær hver og einn yfirdrifið nóg af fæðu en líkurnar á því að tveir einstaklingar hittist og æxlist verða litlar og því verður erfiðara að viðhalda tegundinni. Þessar sveiflur í vistkerfum gerast oft og iðulega í náttúrunni.

Maðurinn hefur nýtt sér þessa þekkingu á vistkerfum til eigin hagsmuna eins og til dæmis með fiskveiðistjórnun. En þar er spilað inná náttúrulegar sveiflur í vistkerfi sjávar og fiskur veiddur í nægilega miklu magni til að fæðan takmarkar ekki vöxt tegundarinnar. Ekki er þó veitt svo mikið að tegundinni fækki um of, því þá getur hún lent í erfiðleikum með að viðhalda sér.