Mynd: PAHO-WHO
Mynd: PAHO-WHO

Zika veiran hefur verið mikið í fjölmiðlum undanfarnar vikur og er því ekki úr vegi að fara yfir hvað sérfræðingar vita um veiruna.

Zika veiran kom fyrst fram á sjónarviðið árið 1947 þegar hún var greind í Zika frumskóginum í Úganda. Síðan þá hefur veiran valdið litlum faröldrum í Afríku, og Asíu og má þar helst nefna faraldur á eyjunni Yap í Míkrónesíu árið 2007 þar sem 75% íbúa eyjunnar sýktust og faraldur á Páskaeyju sem stóð frá mars til júní árið 2014.

Það var síðan í maí 2015 sem yfirvöld í Brasilíu staðfestu að tilfelli af zika veirunni hafði verið greint í landinu. Síðan þá hefur veiran haldið áfram að breiðast út og finnst nú í 24 löndum í Ameríku. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin uppfærir lista yfir lönd þar sem veiran hefur greinst vikulega og má nálgast hann hér.

Zika veiran berst með moskítóflugum af tegundinni Aedes aegypti og smitast á milli manna þegar flugurnar sjúga blóð. Helstu einkenni sýkingarinnar eru hiti, útbrot, tárubólga og vöðvaverkir. Einkenni koma yfirleitt fram 2-7 dögum eftir bit og standa yfir í 2-7 daga. Aðeins um einn af hverjum fjórum sem smitast af veirunni sýnir einkenni en sérfræðingar hafa áhyggjur af hugsanlegum tengslum á milli veirunna og fæðingu barna með dverghöfuð. Ekkert hefur verið staðfest í þeim efnum.

Ekkert bóluefni er til gegn veirunni og meðferð felst aðallega í hvíld og verkjastillingu. Ekki er vitað til þess að veiran hafi dregið smitaða til dauða nema í einstaka tilfellum þar sem sjúklingur þjáðist af undirliggjandi sjúkdómi.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin mælir að svo stöddu ekki gegn því að ferðast sé til þeirra svæða þar sem zika veiran hefur greinst en mælt er með því að ferðamenn verji sig gegn moskítóbitum.