E-efni eru vel skilgreind efni sem sett eru í matvæli af margvíslegum ástæðum, oft til að búa til lit, áferð bragð eða sem rotvarnarefni.

Efni sem fá E-númer eru mikið rannsökuð með tilliti til áhrifa þeirra á matvæli og þá sem þeirra neyta og eru samþykkt sem örugg til neyslu af vísindanefnd Evrópusambandsins. Sama nefnd gefur út fyrirmæli um í hvaða magni er leyfilegt að nota efnin. Stafurinn E vísar í Evrópu (Europe) en númerin hafa einnig ákveðna röðun. Efni í fyrsta hundraði eru efni sem búa til lit, númer í öðru hundraði eru rotvernarefni og þau sem eru í þriðja hundraði eru andoxunarefni.

Tilgangur efnanna í matvælum er margskonar, sem dæmi: E-440 er pectín og flokkast undir svokölluð ýruefni. Tilgangur ýruefna er að halda saman vatnssæknum og vatnsfælnum matvælum. Það má ímynda sér að maturinn yrði frekar ógirnilegur ef fituefnin flytu alltaf ofan á. Þess vegna er pectíni eða öðrum ýruefnum bætt í matvælin.

Annað dæmi er E-101, litarefni sem heitir riboflavin en það vill svo til að riboflavin er einnig B2 vítamín. Einnig af þessum ástæðum hafa efnin fengið E-númer, þ.e. til að auðvelda fólki sem t.d. þjáist af óþoli eða ofnæmi að þekkja efnin sem sett eru í matvælin.

Vegna þess hve nöfn efnanna geta oft verið flókin og mörg og hversu ópersónuleg E-númerin eru hafa þau fengið frekar neikvæða ímynd og margir forðast vörur sem innihalda mikið af E-efnum. Ef ekki er um óþol eða ónæmi að ræða er slíkt óþarfi, enda eru þessi efni mikið rannsökuð með tilliti til öryggis þeirra. Hins vegar er alltaf gott að vita hvað maður er að setja ofan í sig og það getur verið flókið að kunna öll E-númerin utanbókar. Á heimasíðu Food Standard Agency sem er starfrækt í Bretlandi er hægt að nálgast lista yfir öll þau efni sem hafa fengið E-númer. Hann er hægt að nota til að glöggva sig betur á hvað er í matnum okkar.

Heimildir:
Food Standard Agency
Vísindavefurinn