Litningaendar, einnig kallað telómerur, eru eins og nafnið gefur til kynna endarnir á litningunum. Litningar eru erfðaefnið okkar pakkað í mjög skipulagðan strúktúr, sem má lesa meira um í fróðleiksmola Hvatans: Hvað er DNA? Litningar flestra heilkjarna lífvera eru á línulegu formi, öfugt við t.d. bakteríur sem eru með hringlaga litninga. Þetta gerir það að verkum að búa þarf sérstaklega um enda litninganna svo fruman skynji þá ekki sem tvíþátta brot.

Þegar erfðaefnið er eftirmyndað, þ.e. þegar frumur skipta sér og búa til nýtt eintak af erfðaefninu, þá setjast fullt af prótínum sem tengjast saman, prótínflókar, á DNA-þræðina og lesa þá um leið og nýtt DNA er myndað. Til að prótínflókarnir geti myndað nýtt DNA þurfa þeir að hafa DNA-þráð til að vita hvers konar röð á að mynda og á þræðinum þarf að vera nægjanlegt pláss fyrir prótínin til að vinna. Þegar prótínflókinn kemur út á enda á litningnum er plássið orðið takmarkað og flókinn þarf þess vegna að hætta að eftirmynda áður en hann kemst alla leið útá enda, þannig styttast litningarnir okkar um nokkur basapör í hvert skipti sem DNA-ið er eftirmyndað. Vegna þessa eru raðirnar á litningaendunum ekki mikilvægar genaraðir heldur endurteknar raðir sem geyma engar mikilvægar genaupplýsingar.

Þessar raðir sem telja um 10-15 þúsund basa eru endurtekningar af röðinni TTAGGG og að auki er endinn einþátta, en ekki tvíþátta eins og allt annað DNA í líkama okkar. DNA strendingurinn sem stendur á enda litninganna binst svo við svokallaðan shelterin-flóka. Shelterin-flókinn samanstendur af mörgum mismunandi prótínum en þau ganga yfirleitt undir samheitinu shelterin-prótín. Prótínin tengjast saman og tengjast svo einnig erfðaefninu og saman myndar DNA-ið og prótínin lykkjubyggingu á enda litninganna svo erfðaefnið er þá varið frá því að vera skynjað sem tvíþáttabrot.

Mynd: Wikipedia
Mynd: Wikipedia

Litningaendar eða telómerur eru sem sagt samheiti yfir bæði einþátta DNA-raðirnar sem eru á enda litninganna og prótínflókann sem sér um að pakka þeim saman. Litningaendar eru mjög forvitnilegt og mikið rannsakað fyrirbæri en hluti þess að eldast er til dæmis að litningaraðirnar styttast, þegar þær verða svo stuttar að endurteknu raðirnar eru búnar þá skynjar fruman það og fer í öldrunarfasa og/eða stýrðan frumudauða.

Þessi skynjun eða ferlin sem koma þar á eftir misfarast oft í krabbameinum, þá skynjar fruman ekki að hennar hlutverki í líkamanum er að ljúka og oft virkja krabbameinsfrumur ferli sem felst í því að búa bara til nýjar raðir á litningaendana. Það gæti í eyrum einhverra hljómað eins og lykillinn að hinni eilífu æsku, en því miður þá er svo ekki því frumur sem fallast ekki á aldur sinn eru orðnar svo ruglaðar, þ.e. með skemmdir í DNA-inu og hættar að skynja sitt nánasta umhverfi að þær eru orðnar hættulegar og æxlismyndandi. Hægt er að lesa sér betur til um þau ferli í fróðleiksmola Hvatans um krabbamein.

Heimildir: T. De Lange (2005)