Sætuefni eru hitaeiningalaus eða snauð efni sem gefa sætt bragð. Sætuefni geta verið af ýmsum toga og geta þau bæði komið fyrir í náttúrunni eða verið búin til á rannsóknarstofu. Þó mörg sætuefni komi fyrir í náttúrunni þá eru þau samt sem áður fæst einangruð úr náttúrulegum uppsprettum sínum þar sem það borgar sig yfirleitt ekki.

Sætuefni eru ekki öll eins, einn flokkur sætuefna kallast sykrualkóhól en það eru sykrukeðjur með alkóhól-hópum. Þetta þýðir ekki að sykrurnar eru áfengar né heldur að þetta sé sykur. Þegar við borðum sykrualkóhól finnum við sætt bragð, en við getum ekki melt efnið og því tökum við fáar hitaeiningar upp við inntöku þeirra.

Flest önnur sætuefni eru litlar sameindir, s.s. ekki sykrukeðjur eða umbreyttar sykrur, heldur sameindir sem gefa sætt bragð vegna þess að þær passa á sykurviðtakana okkar á tungunni. Bragðlaukarnir fá örvun þegar sameindir með rétta byggingu bindast við þá, súkrósi er ein slíkra sameinda en svo geta margar aðrar haft byggingu sem er nægilega lík súkrósanum til að örva bragðlaukana.

Dæmi um slíkar sameindir er aspartam, en aspartam er samsett úr tveimur amínósýrum, aspartic sýru og fenýlalanín. Þessi litla sameind sest á viðtaka í tungunni sem gefur merki um sætt bragð og síðan er efnið brotið niður í amínósýrurnar tvær þegar í meltingarveginn er komið, svipað og við gerum við prótín. Önnur slík sameind er svo sakkarín sem er sennilega elsta þekkta sætuefnið. Efnasambönd sem þessi gefa sætt bragð en oft má merkja aukabragð sem fylgir þeim. Nokkuð algengt er að aukabragðið sé beiskt, það getur þó farið eftir samhengi sætuefnanna.

Listi sætuefna er langur, þó hann sé alls ekki ótæmandi, og nokkur sætuefni hafa líka verið tekin af markaði vegna þess að þau teljast hafa hættulegar aukaverkanir. Langflest sætuefni sem nú fyrirfinnast á markaði hafa þó farið í gegnum prófanir sem staðfesta að þau valda ekki heilsutjóni. Hins vegar má setja spurningamerki við það hvort það sé líkamanum hollt að senda honum stanslaus skilaboð um inntöku á sætum og þar af leiðandi hitaeiningaríkum mat, ef fæðan er svo ekki að standast væntingar líkamans. Rannsóknir á slíku eru skammt á veg komnar en það verður áhugavert að sjá hvort sætuefni hafi kannski víðtækari áhrif en við héldum.

Heimildir:
NHS
National Library of Medicine
Wikipedia
Diabetes UK