Sveppir er mjög fjölbreyttur hópur lífvera, sem fylla heilt ríki í lífsins tré, en þessar lífverur spanna ótrúlegan fjölda tegunda. Sveppir töldust lengi vel til ríkis plantna enda hafa þeir marga svipaða eiginleika en erfðafræðilega líkjast sveppir þó dýrum mun meira en plöntum. Sveppir geta bæði verið einfrumungar sem og fjölfrumungar en eiga það sameiginlegt að mikill meirihluti þeirra myndar frumuvegg sem er úr kítíni, geyma aukaforða á glýkógenformi og eru ófrumbjarga, þ.e.a.s. þurfa geta ekki búið sér til næringu úr ólífrænum efnum. Sveppum er skipt upp í hópa eftir útliti þeirra, myndun og uppröðun gróa og frumufjölda hverrar lífveru svo eitthvað sé nefnt.

Við þekkjum sveppi helst sem matsveppi, flestir matsveppir koma uppúr jörðinni en sá hluti sveppanna sem við borðum er æxlunarfæri lífverunnar. Ofan í jörðinni myndar sveppurinn stærðarinnar net en til að dreifa gróum sínum gæjist upp hinn eiginlegi matsveppur. Annar sveppur sem mikið er notaður í matreiðslu er gersveppur, en hann er þó mjög ólíkur öðrum matsveppum í útliti. Gersveppurinn er einfrumungur sem vex ótrúlega hratt og er notaður í brauðbakstur á sama hátt og lyftiduft. Að auki er gersveppur notaður í bruggun, en þar er hann notaður til að gerja sykrur sem fást úr korni á borð við bygg. Við gerjunina myndast alkahól (og reyndar koldíoxíð líka sem notað er við baksturinn), sem eru grunnurinn að drykknum sem verður til, svo sem bjór eða viský.

Annað sveppaform sem er vel þekkt meðal manna eru myglusveppir eða mygla. Margir kannast því miður við myglusvepp vegna sýkinga sem hafa komið upp í húsum þeirra. Frægustu myglusveppirnir eru samt sem áður þeir sem mynda sýklalyfið pensilín. Sveppir eru reyndar frægir fyrir að mynda mörg lífvirk efni, eins og sýklalyf. Það er því hægt að líta á sveppi nokkurn veginn sem líffræna verksmiðju en svo eru þeir ekki síður mikilvægir til að eyða efnum úr umhverfinu með niðurbroti.

Þriðja form sveppa sem mannfólkið þekkir náið og kannski of náið eru sveppasýkingar á eða í líkamanum. Sveppir eru eins og bakteríur, örverur sem lifa á líkama okkar, en þegar ójafnvægi kemst á örveruflóruna getur komið upp sú staða að sveppir vaxa meira en aðrar örverur og þá kallast það sveppasýking. Margir fá til dæmis sveppasýkingu þegar sýklalyf eru tekin, vegna þess að sýklalyfin drepa bakteríur en ekki sveppi.

Sveppir eru eins og áður sagði ótrúlega fjölbreyttur hópur lífvera sem geta bæði verið manninum gagnlegir og óæskilegir. Til að lýsa öllum þeim aragrúa sveppa og öllum kostum og ókostum sem þeim fylgja þyrfti miklu fleiri og miklu lengri fróðleiksmola svo hér verður bara stiklað á helstu atriðunum sem þeim viðkoma.

Heimildir:
Biology reference
Microbiology online
University of California Museum of Paleontology