Utangenaerfðir eru eiginleikar sem skráðir eru í erfðaefnið án þess að vera skrifaðir í DNA röðina sjálfa, eiginleikarnir eru skilgreindir útfrá merkingum sem hengdar eru á erfðaefnið eða útfrá byggingu erfðaefnisins sem ræður aðgengi umriturnarprótína að DNA-inu. Þessar merkingar og byggingabreytingar hafa áhrif á hvort, hvenær og hversu mikið tiltekið gen er tjáð.

Utangenaerfðir erfast í fæstum tilfellum frá foreldri til akvæma, þó eru til undantekningar á því. Hins vegar erfast utangenaerfðir frá móðurfrumu til dótturfrumu, það þýðir að við frumuskiptingu viðhaldast merkingarnar.

Merkingar sem taldar eru til utangenaerfða geta verið á litlum skala, þ.e. merkingar á DNA-inu sjálfu, dæmi um þetta eru metýlhópar sem hengdir eru á basana. Þumalputtareglan er að metýlering gefi merki um minni tjáningu.

Eins og lesa má í fróðleiksmola Hvatans Hvað er DNA? er erfðaefninu pakkað uppá prótín sem heita histón. Merkingar sem hengdar eru á históna teljast einnig til utangenaerfða, en þessar merkingar annað hvort auka eða minnka aðgengi að erfðaefninu og stjórna þannig hvort, hvenær og hversu mikið er tjáð.

Utangenaerfðir eru tilkomnar vegna umhverfisþátta. Gott dæmi um mikilvægi utangenaerfða er fósturþroski, en upphaflega hefst sá þroski í einni frumu sem hefur hæfileikann til að mynda allar frumur líkamans. Í fósturþroska fer fram mjög nákvæmt ferli sem stýrir því í hvaða átt frumur fóstursins þroskast. Stór hluti af þessu ferli er skráning utangenaerfða í frumunum, sem skilgreinir þá hvaða gen á að tjá í viðkomandi frumu og hvaða gen verða ekki tjáð. Þessari atburðarás er hrint af stað vegna hormóna og annarra sameinda í okfrumunni en þegar fyrstu merkingar hafa verið skráðar fer einnig í gang röð atburða sem leiða frumurnar að þeirri frumugerð sem þeim er ætlað að lifa.

Breytingar geta orðið í utangenaerfðum sem leiða til sjúkdóma. Margar slíkar breytingar eru þekktar í til dæmis krabbameinum þar sem breytingar á merkingum leiða annað hvort til þess að gen sem leiða til örari vaxtar eru tjáð í meira magni en venjulega, eða að gen sem hamla vexti eru ekki tjáð í nægilegu magni. Utangenaerfðir hafa sambærileg áhrif í mörgum öðrum þekktum sjúkdómum, sykursýki og hjarta- og æðasjúkrómum svo eitthvað sé nefnt.

Utangenaerfðir eru ennþá tiltölulega ókannað svæði innan vísindaheimsins. Áhrif þeirra á frumur voru lengi vel vanmetin að minnsta kosti í samhengi við alla þá sjúkdóma sem utangenaerfðir hafa áhrif á.

Heimild: Wikipedia