Francisco Mojica hefur verið eignaður heiðurinn að því að uppgötva CRISPR raðir í bakteríum. Hann uppgötvaði einnig, samhliða frönskum vísindahópi, hlutverk raðanna sem nokkurs konar ónæmiskerfi baktería.

Mynd: Universidad de Alicante
Mynd: Universidad de Alicante

Francisco Mojica er fæddur og uppalinn á Spáni. Árið 1989 hóf hann doktorsnám við háskólann í Alicante, þar sem hann rannsakaði saltþolnar bakteríur af tegundinni Haloferax mediterrane. Í rannsóknum sínum uppgötvaði Mojica sérstakar endurteknar raðir sem komu fyrir í erfðamengi bakteríunnar. Raðirnar höfðu sérstakan strúktút og taldi Mojica líklegt að þessar raðir gengdu mikilvægu hlutverki, þó þær virtust ekki vera uppskrift af neinni prótín-afurð. Þegar Mojica sá að kollegar hans í Japan höfðu uppgötvað raðir með sambærilegan strúktúr í E. coli varð hann enn sannfærðari um mikilvægi raðanna.

Mojica rannsakaði raðirnar frá árinu 1989 með stuttu hléi árið 1995. Hann lýsti röðunum, gaf þeim einnig nafnið clustered regularly interspaced palindromic repeats (CRISPR) og uppgötvaði CRISPR assiciated genes eða Cas, prótín sem vinna með CRISPR röðunum sem ónæmiskerfi bakteríanna, ásamt rannsóknarhópi sínum við háskólann í Alicante.

Það var í kringum aldamótin 2000 sem hlutverk raðanna uppgötvðaist. Mojica birti grein um samsvörin milli CRISPR raðanna og þekktra veiruraða árið 2005. Á nánast sama tíma birti franskur vísindahópur undir leiðsögn Gilles Vergnaud svipaðar niðurstöður. Það má því segja að báðir hóparnir eigi heiðurinn að uppgötvunum á hlutverki CRISPR raðanna. Samsvörin milli CRISPR raðanna og veiruraðanna var talinn sýna hvernig bakteríur nota CRISPR kerfið til að þekkja veirur sem geta sýkt þær. Ástæðan fyrir þeirri ályktun er sú að þar sem veiruraðir voru til staðar í bakteríum var bakterían ónæm fyrir sýkingum af völdum veirunnar.

Í dag er CRISPR/Cas kerfið notað til að gera mjög nákvæmar erfðabreytingar við hinar ýmsu rannsóknir. Sem dæmi má nefna að þessi aðferð er notuð til að breyta frumulínum og skoða þannig hvaða áhrif það getur haft að stökkbreyta völdum genum. Uppgötvun Mojica hefur því verið vísindaheiminum mikill innblástur, þar sem hún hefur gefið vísindahópum um allan heim ný tól til að rannsaka erfðamengið.

Heimildir:
The Heroes of CRISPR, eftir Eric S. Lander
Broad Institute
Universidad de Alicante