Guðmundur Eggertsson hefur óopinberlega fengið titilinn faðir erfðafræðinnar, á Íslandi. Hann hefur reyndar líka fengið titilinn faðir sameindalíffræðinnar, sem á kannski betur við. Guðmundur Eggertsson er fæddur árið 1933, hann ólst upp á Bjargi í Borgarnesi en lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1951. Eftir Stúdentspróf hélt Guðmundur til Kaupmannahafnar að leggja stund á grasafræði, að eigin sög var það móðir hans sem kveikti áhuga hans á náttúrunni og þá sérstaklega plöntum og þess vegna varð grasafræðin fyrir valinu þegar hann hóf háskólanám.

En á þeim tíma sem Guðmundur var í Kaupmannahöfn urðu stórar uppgötvanir í sameindalíffræði og erfðafræði. Þetta var á svipuðum tíma og skilgreiningar á erfðaefninu voru að líta dagsins ljós, skilgreiningar á byggingu DNA helixins urðu til og í kjölfarið varð skilningur mannanna á virkni frumna miklu meiri. Guðmundir skipti því yfir í erfðafræði á þriðja námsári sínu og lauk svo prófi í þeirri grein árið 1958. Guðmundur starfaði svo bæði í Kaupmannahöfn og London við rannsóknir áður en hann hélt til Bandaríkjanna í doktorsnám, en því lauk hann árið 1965 frá Yale háskólanum. Eftir að doktorsnámi lauk lá leið Guðmundar til Ítalíu þar sem hann hélt áfram rannsóknum sínum, svo hann kom víða við á rannsóknarferli sínum áður en haldið var aftur heim til Íslands.

Það var árið 1969 sem Guðmundur var beðinn um að koma heim af Jóhanni Axelssyni sem þá hafði yfirumsjón með uppbyggingu nýrrar skorar við Háskóla Íslands, líffræðiskor. Yfirvöld höfðu ákveðið að setja á laggirnar líffræðinám þar sem tilfinnanlega vantaði náttúru- og líffræðimenntaða kennara í grunn- og framhaldsskólana.

Guðmundur svaraði kalli heimalands síns og sneri heim til að vinna að uppbyggingu þess sem nú er Líf- og umhverfisvísindadeild. Frá árunum 1969 til ársins 2004 starfaði Guðmundur við háskólann og menntaði að miklu leiti alla þá líffræðinga sem stunduðu nám á þessum tíma. Þeir líffræðingar sem hafa stundað nám eftir að Guðmundur lét af störfum minnast þess þó örugglega að hafa heyrt vitnað í hann og flestir kennarar við deildina í dag hafa fengið hluta af sinni menntun frá Guðmundi, hvort sem er í grunnámi eða framhaldssnámi, svo handbragðs hans gætir enn í vísindasamfélaginu.

Eftir að Guðmundur lét af störfum við háskólann hefur hann gefið út þrjár bækur, Líf af lífi árið 2005, Leitin að uppruna lífs árið 2008 og Ráðgáta lífsins sem kom úr 2014. Eins og titlar bókanna gefa til kynna þá leitast Guðmundur við að svara þeim grunnspurningum sem líffræðingar fást við á hverjum degi, hvað er líf? Það er því óhætt að segja að Guðmundur er hvergi nærri hættur að örva huga þeirra sem hafa áhuga á vísindum.

Nýliðna helgi tók Guðmundur við heiðursverðlaunum á Líffræðiráðstefnunni fyrir framlag sitt til vísindasamfélagsins hér á Íslandi sem og erlendis.

Heimildir:

Háskóli Íslands
Mbl
Land og Saga
Forlagið