Mynd: Science Notes
Mynd: Science Notes

Dmitri Mendeleev er eignaður heiðurinn að lotukerfinu eins og við þekkjum það í dag. Dmitri, sem fæddist 8. febrúar árið 1834 var alinn upp í a.m.k. 16 systkina hóp í Síberíu. Þegar hann var 16 ára fluttist hann til St Pétursborgar til að læra til kennara við sama skóla og faðir hans hafði kennt við. Árið 1856 lauk Mendeleev svo einnig masters gráðu í efnafræði, en efnafræðin hafði heillað hann alveg síðan hann hafði hafið nám við Háskólann í St Pétursborg.

Eftir að námi lauk eyddi Mendeleev nokkrum árum í Heidelberg þar sem hann vann með mörgum þekktum efnafræðingum sem á þeim tíma voru að uppgötva og lýsa nýjum frumefnum. Þegar Mendeleev sneri heim til St Pétursborgar fann hann sig knúinn til að miðla þekkingu sinni áfram til þjóðar sinnar og skrifaði hann nokkrar bækur um efnafræði, þ.á.m. Organic Chemistry og The Principles of Chemistry.

Á þessum tíma sótti Mendeleev einnig fyrstu alþjóðlegu efnafræðiráðstefnu sem haldin var í heiminum en hún fór fram í Karlsruhe í Þýskalandi. Þar bar af eitt atriði sem brann mikið á fræðimönnum, en það var þörfin fyrir betra skipulag á frumefnunum. Á þessum tíma voru 65 frumefni þekkt. Til að reyna að koma skikki á þessi nýju fræði teiknaði Mendeleev frumefnin upp á spjöld, eitt spjald fyrir hvert frumefni og skrifaði svo á spjöldin eiginleika efnanna. Þegar því var lokið raðaði hann svo efnunum fram og til baka til að reyna að finna einhverja reglu.

Að lokum varð til það sem við þekkjum í dag sem lotukerfið. Mendeleev sá að efnin höfðu mismunandi eiginleika sem féllu inní reglu af massatölu þeirra. Nokkur frumefni sem voru þekkt á þessum tíma pössuðu þó ekki inní regluna, massatala þeirra hentaði ekki eiginleika þeirra. Mendeleev lagði þá fram tilgátu um að massatalan hefði verið röng, sem seinna kom á daginn að var rétt hjá Mendeleev. Að auki vantaði helling af frumefnum inní töfluna, hún var götótt, og útfrá því lagði Mendeleev fram tilgátu um að þarna væru frumefni sem ætti eftir að lýsa, en hann gaf þeim massatölu og lýsti eiginleikum sem hann taldi þau hafa útfrá lotukerfinu. Þetta reyndist einnig rétt hjá honum.

Vegna þessara tveggja atriða sem talin eru hér að ofan, þ.e. skýringarnar á frumefnum sem pössuðu ekki í lotukerfið og nýju frumefnin sem uppgötvuðust svo eftir að lotukerfið varð til, fékk lotukerfið Mendeleevs athygli í vísindaheiminum. Aðrir vísindamenn höfðu áður sett fram tilgátur um kerfi sem var ekki mjög ólíkt kerfi Mendeleevs, þeirra vinna fékk bara enga athygli.

Mendeleev hélt áfram að vinna sem efnafræðingur og kennari allt til dauðadags 2. febrúar 1903, þá dró flensan hann til dauða 73 ára að aldri. Verk hans lifa þó áfram og þá sér í lagi lotukerfið sem við erum svo heppin að hafa okkur til halds og trausts í nútímanum.

Heimildir:
Famous Scientists
Royal Society of Chemistry