download

Það eru ekki margar Hollywood stjörnur sem geta státað sig af því að vera uppfinningamenn í hjáverkum en Hedy Lamarr er ein þeirra.

Hedy Lamarr var fædd Hedwig Eva Maria Kiesler þann 9. nóvember 1914 í Austurríki en lést árið 2000, 85 ára að aldri. Lamarr var eftirsótt leikkona í Hollywood á fjórða, fimmta og sjötta áratug síðustu aldar en leiddist leikkonulífið. Hún sneri sér þess vegna að vísindunum í frístundum sínum en til þess hafði hún engar flottar rannsóknarstofur, aðeins lítinn krók heima hjá sér.

Lamarr langaði að nýta áhuga sinn á vísindindum í baráttunni gegn nasisma í seinni heimstyrjöldinni. Í kjölfarið þróaði hún meðal annars tækni sem nefnist bylgjuhopp (e. frequency hopping) til að koma í veg fyrir að óvinir gætu truflað sendingu á útvarpsbylgjum, sem til dæmis voru nýttar til að senda tundurskeyti. Tæknin nýtti píanóhólka sem voru notaði til að láta sendingar hoppa á milli 88 rása. Þetta gerði óvinum erfitt fyrir þegar þeir reyndu að trufla sendingar.

Þrátt fyrir að Lamarr og samstarfsmaður hennar, tónskáldið George Antheil, hafi fengið einkaleyfi fyrir hugmyndinni árið 1941 var það ekki fyrr en á sjöunda áratugnum sem bandaríski sjóherinn hóf að nýta tæknina. Með tilkomu farsíma var tækni Lamarr einnig nýtt og er hún í dag meðal annars notuð í þráðlausu interneti og Bluetooth tækni.

Ekki fór mikið fyrir vísindastörfum Lamarr á meðan á leiklistarferli hennar stóð og hún átti því miður heldur sorglega ævi sem má lesa um í sjálfsævisögu hennar „Ecstacy and Me“.

Lamar fékk loks viðurkenningu fyrir störf sín árið 1998 þegar einkaleyfi fyrir uppfinningu hennar var keypt af fyrirtækinu Wi-LAN Inc. Árið 2014 var hún vígð inn í The National Inventors Hall of Fame í Bandaríkjunum, auk þess sem hún fékk heiðursgröf í kirkjugarði í Vín.

Heimildir:
HedyLamarr.com
Kvikmyndir.is
Wikipedia