Mynd: Rabin Martin
Mynd: Rabin Martin

Henrietta Lacks lagði miklu meira til sameinda-, frumulíffræði og læknisfræðinnar en hún nokkru sinni gat sjálf vitað. Raunar var henni með öllu ómögulegt að átta sig á hversu mikið hún lagði til fræðigreinarinnar þar sem hennar framlög voru tekin án hennar vitneskju. Saga Henriettu Lacks er stórmerkileg en sem betur fer, að öllum líkindum einstök.

Henrietta fæddist árið 1920 í Virginiu ríki í Bandaríkjunum. Líf hennar einkenndist líklega mest af striti fyrir lifibrauði sínu. Síðari hluta ævi sinnar bjó hún í Baltimore, ásamt eiginmanni sínum. Hún var einungis 14 ára þegar hún eignaðist sitt fyrsta barn, en samtals urðu börnin fimm. Það yngsta fæddist árið 1951, nokkrum mánuðum áður en hún greindist með krabbamein í leghálsi.

Henrietta leitaði meðferðar við sjúkdómi sínum á John Hopkins sjúkrahúsinu í Baltimore. Því miður bar meðferðin ekki árangur og Henrietta lést aðeins 31 árs að aldri síðla árs 1951 en þá hafði sjúkdómurinn meinvarpast um allan líkama hennar.

Meðan á meðferð Henriettu stóð voru tekin sýni úr henni sem læknir að nafni George Gey fékk í sínar hendur. Hann ásamt eiginkonu sinni, Margaret Gey, og samstarfskonu, Mary Kubicek, tókst að halda lífi í frumunum. Slíkt hafði ekki verið hægt áður en þegar unnið er með heilbrigðar frumur utan líkama þola þær einungis örfáar frumuskiptingar áður en þær deyja.

Krabbameinsfrumur Henriettu urðu því að fyrstu krabbameinsfrumulínunni sem notuð var í vísindum. Frumulínan fékk nafnið HeLa sem vísar í upphafsstafi Henriettu. Eftir að frumulínan var einangruð var hún notuð í læknisfræðilegum rannsóknum víða um heim, m.a. við að þróa bóluefni við mænusótt og einnig hefur hún gengt hlutverki við prófanir á hinum ýmsu efnum eins og snyrtivörum. HeLa frumulínan er enn í dag notuð í frumulíffræðirannsóknum um allan heim.

Hvorki Henrietta né fjölskylda hennar höfðu hugmynd um það framhaldslíf sem Henrietta öðlaðist á rannsóknarstofum heimsins. Það var ekki fyrr en löngu seinna sem fjölskylda hennar fékk að heyra alla sólarsöguna en á þeim tíma sem Henrietta barðist við veikindi sín tíðkaðist ekki að fá samþykki sjúklinga við sýnatökum hvað þá frekari rannsóknum. Í dag er viðtekinn skilningur og sáttmáli meðal vísindamanna að slík vinnubrögð eru ekki til eftirbreytni og líklega hafa aðrar frumulínur ekki orðið til fyrir álíka tilstilli.

Þó tilkoma frumulínunnar hafi í raun verið með versta móti þá eigum við sem samfélag Henriettu heilmikið að þakka, en án frumnanna hennar hefðu margar rannsóknir aldrei verið unnar og óteljandi uppgötvanir aldrei verið gerðar eða a.m.k. seinkað umtalsvert.

Heimildir:
Wikipedia, Henrietta Lacks
The immortal life of Henrietta Lacks
Hela family stories
Henrietta Lacks’ ‘Immortal’ Cells