Mynd: Fine Art Images/Heritage Images/Getty Images
Mynd: Fine Art Images/Heritage Images/Getty Images

Tíkin Laika var flækingshundur frá Moskvu sem fékk þann vafasama heiður að vera eitt af fyrstu dýrunum sem fóru í geiminn og það fyrsta sem fór á sporbraut um Jörðu. Laika fór ferð sína í geimfarinu Sputnik 2 sem Sóvétríkin skutu út í geiminn þann 3. nóvember 1957.

Á sjötta áratugnum var lítið vitað um áhrif þess að senda dýr út í geim og var Laika send í geimförina í þem tilgangi að varpa ljósi á það áður en menn legðu sig sjálfir í hættu. Ekki var búist við því að Laika myndi lifa ferðina af enda hafði mönnum ekki tekist að finna leið til að koma geimförum af sporbraut aftur á þeim tíma.

Áður en Laika var send út í geim fékk hún þjálfun sem meðal annars samanstóð af því að dvelja í sífellt minni búrum í allt að 20 daga, að borða næringarríkt gel, sem yrði fæðan hennar í geimnum, auk þess sem hún var sett í þeytivindu sem líkti eftir hröðuninni sem á sér stað við flugtak.

Stuttu fyrir geimferðina tók einn vísindamannanna, Dr. Vladimir Yazdovsky, Laiku með sér heim þar sem hún fékk að leika við börnin hans. Yazdovsky sagði í bók um sögu geimlækninga í Sóvétríkjunum að hann hafi langað að gera eitthvað fallegt fyrir hana þar sem hún ætti aðeins stutt eftir af ævi sinni.

Laika lifði aðeins í nokkrar klukkustundir í geimnum og dó hún úr ofhitun. Það var þó ekki fyrr en árið 2002 sem raunveruleg ástæða þess að Laika dó var gerð opinber en fram að því hafði ýmist verið sagt að hún hafi dáið á sjötta degi í geimnum þegar súrefnisbyrgðir kláruðust eða að hún hafi verið svæfð áður en súrefnið kláraðist.

Eðlilega vöknuðu upp siðferðislegar spurningar þegar Laika var send í geiminn, sér í lagi varðandi illa meðferð á dýrum og lögmæti dýratilrauna. Gagnrýnin kom þó fram töluvert eftir að geimferðin hafði átt sér stað og var geimferðin gagnrýnd meira í Bretlandi og Bandaríkjunum en í Sóvétríkjunum sjálfum.

Hundar voru sendir í geiminn nokkrum sinnum eftir að geimferð Laiku var yfirstaðin en þær voru ólíkar að því leiti að ætlunin var að hundarnir kæmust lifandi til baka. Þrátt fyrir það dóu fjórir hundar til viðbótar í geimferðum á vegum Sóvétríkjanna.

Laiku var reistur minnisvarði í Star City í Rússlandi þar sem sjá má styttu af henni standa á geimfari.