Louis Pasteur var franskur vísindamaður á 19. öld og er einna þekktastur fyrir að leggja grunninn að gerilsneyðingu en á ensku útleggst það einmitt pasteurisation. Louis sýndi fram á með einföldum en áreiðanlegum hætti að líf kviknar ekki að sjálfu sér en þær tilraunir byggðust einmitt á fyrri uppgötvunum hans um gerilsneyðingu, sem fór fram með hita.

Louis Pasteur fæddist árið 1822, í litlum bæ í norður Frakklandi. Hann lagði stundir á raunvísindi og hefur í seinni tíð verið titlaður bæði efnafræðingur og örverufræðingur. Þær rannsóknir sem hann er sennilega frægastur fyrir vann hann við háskólann við Lille. Þar var eitt hans helsta verkefni að skoða bjórbruggun, bruggunin gaf nefnilega misjafnt bragð eftir því hvar hún fór fram. Þegar nánar var skoðað kom í ljós að kerin sem gáfu verra bragð geymdi allt aðra gerð baktería en þau ker sem gáfu góða bragðið. Pasterur reyndi þá að drepa bakteríurnar með því að hita mjöðinn uppí 60°C. Þetta mun sennilega hafa verið fyrsta gerilsneyðingin sem framkvæmd var í heiminum, að minnsta kosti viljandi og er þessi aðferð enn notuð í dag, með örlitlum blæbrigðamun.

Pasteur lét þó ekki þar við sitja og setti hann mikla orku í rannsóknir sem komu bjór- og vínframleiðslu til góða sem og silkiframleiðslu. Pasteur tók einnig stóran þátt í þróun bóluefna við bæði hundaæði og miltisbrandi. Hann var á þeim tíma partur af minnihluta vísindamanna sem héldu því fram að ýmsir sjúkdómar væru tilkomnir vegna sýkinga frá bakteríum. Hann átti þannig stóran hlut í því að sannfæra restina af heiminum um það sem við lítum á sem sjálfsögð sannindi í dag.

Eins og áður hefur verið nefnt hafnaði Pasteur einnig kenningum um sjálfkviknun lífs, til að sýna fram á það notaðist hann við gerilsneytt æti, í svanahálsflöskum sem voru þannig hannaðar að loft komst að ætinu án þess að bakteríur komist í flöskurnar, eins og sést á myndinni hér að neðan. Þegar æti var gerilsneytt og aðgangur að því takmarkaður þá kviknaði ekkert líf í þeim.

Mynd: AmoebaMike
Mynd: AmoebaMike

Louis Pasteur dó árið 1895, á tíma sínum í vísindum lagði hann mikið af mörkum til matvælafræði, læknisfræði og landbúnaðar svo eitthvað sé nefnt. Hann afrekaði margt á ævinni en sennilega eru hugmyndir hans um gerilsneyðingu það sem hefur haldið nafni hans á lofti, enda er aðferðin nefnd í höfuðið á honum.

Heimildir:
Wikipedia
Encyclopedia Britannica
Chemical Heritage Foundation