Marie Curie-Skłodowska er ein af frægustu konum vísindaheimsins en hún, ásamt manni sínum, skilgreindi geislavirkni og geislavirku efnin pólóníum og radíum. Marie Curie var fyrsta konan sem hlaut Nóbelsverðlaun og eina konan hingað til sem hefur hlotið þau tvisvar, í fyrra skiptið í eðlisfræði og það seinna í efnafræði.

Marie sem var til á árunum 1867-1934, ólst upp í Póllandi, sem þá tilheyrði Rússlandi. Hún var alin upp við mikla fátækt og þurft mikið að hafa fyrir því að koma sér og systur sinni í gegnum háskólanám í Sorbonne háskóla í Frakklandi. Þær systurnar skiptust á að fara í nám meðan hin vann fyrir þeim báðum. Í námi sínu kynntist Marie manninum sínum, Pierre Curie sem vann með henni að rannsóknum á geislavirkni við Sorbonne háskóla. Bæði gengdu þau stöðu við háskólann en það var ekki algengt að sjá konur í slíkum stöðum á þeim tíma.

Þau hjónin unnu mikið saman og birtu greinar saman sem og í sitt hvoru lagi um rannsóknir sínar. Marie þurfti að hafa mikið fyrir því að fá verk sín viðurkennd þar sem ekki tíðkaðist að konur stunduðu vinnu af þessu tagi. Þegar hjónin, ásamt Henri Becquerel, hlutu Nóbels-verðlaun í eðlisfræði árið 1903, fyrir vinnu sína við að skilgreina geislavirkni, hafði nóbelsverðlaunanefndin ekki í huga að veita verðlaunin til konu. Það var fyrir tilstilli Pierres sem verðlaunin voru veitt til þeirra þriggja, enda átti Marie stóran þátt í rannsóknunum.

Á þessum tíma var geislavirkni og áhrif hennar á heilsu fólks lítið þekkt. Marie og Pierre unnu á illa búinni rannsóknarstofu og gerðu sér litla sem enga grein fyrir því hvaða áhrif vinnan þeirra gat haft á heilsuna. Pierre lést stuttu eftir að þau fengu Nóbelsverðlaunin, eða árið 1906. Hann hafði þá í nokkurn tíma verið heilsuveill þó það hafi ekki dregið hann til dauða en hann lést af slysförum þegar hestvagn keyrði hann niður. Eftir dauða Pierres fékk Marie stöðuhækkun við háskólann, stöðuhækkun sem hafði verið eyrnamerkt Pierre. Marie einbeitti sér að því að byggja upp betri rannsóknaraðstæður og kom á fót því sem í dag heitir Curie Institute við háskólann.

Árið 1911 hlaut Marie seinni Nóbelsverðlaunin sín, í þetta skiptið í efnafræði fyrir vinnu sína með pólóníum og radíum. Peningana notaði hún til að byggja upp Curie Institute, sem þá hét reyndar Radium Institute. Marie var mikils virtur vísindamaður og nýtti vinnu sína meðal annars í þágu heilbrigðisvísinda í seinni heimstyrjöldinni. Á meðan öllu þessu stóð ól hún einnig upp dætur sínar tvær Iréne og Evu sem fæddust 1897 og 1904.

Marie Curie lést árið 1934 að öllum líkindum úr veikindum sem voru tilkomin vegna návígis hennar við geislavirkni öll þessi ár. Marie Curie er fyrirmynd vísindakvenna en hún ruddi brautina fyrir komandi kynslóðir og setti ný viðmið á mörgum sviðum. Í dag er hún heiðrum meðal annars með Marie Curie sjóðnum, en það er sjóður í hennar nafni sem úthlutar styrkjum til vísindarannsókna.

Yngri dóttir þeirra Marie og Pierre Curie ritaði ævisögu móður sinnar sem var gefin út á íslensku árið 1939 og er mjög áhugaverð lesning, en bókin heitir Frú Curie.

Heimildir:

Wikipedia
Nobelprize
American Institute of Physics