Gregor Mendel var austurrískur munkur sem oft er nefndur faðir erfðafræðinnar. Mendel sá að eiginleikar erfðast. Í dag vitum við að það eru gen sem erfast og að þau eru skráð í erfðaefnið okkar, sem og allra annarra lífvera. Á þeim tíma vissi hann ekki að um gen var að ræða og erfðaefnið var ekki þekkt en hann skynjaði samt sem áður að einhverra hluta vegna voru ákveðnir eiginleikar sem erfðust frá foreldri til afkvæma meðan aðrir eiginleikar gerðu það ekki.

Rannsóknir Mendels fóru fram um miðja 19. öld, hann birti þær í vísindariti árið 1866 og hélt einnig fyrirlestra um niðurstöður sínar en fáir virtust sýna þeim nokkurn áhuga. Menn héldu á þeim tíma að blöndun á vessum væri ástæða þess að afkvæmi líkjast foreldrum sínum, eins og þegar eggfruma og sáðfruma renna saman. Þar af leiðandi var viðtekin skoðun að afkvæmi væru meðaltal foreldra sinna.

Það sem kom Mendel meðal annars á sporið um að vessakenningin væri ekki fullkomlega rétt var að stundum erfa afkvæmi eiginleika sem eru augljóslega eingöngu frá öðru foreldri sínu, þ.e.a.s. þau sýna ekki meðaltal. Dæmi um þetta voru erturnar sem Mendel notaðist við. Hann var með tvö mismunandi afbrigði sem hann æxlaði saman. Annað afbrigðið gaf gular baunir en hitt gaf grænar. Þegar plöntunum var æxlað saman fengust ekki ljósgrænar baunir, eins og vessakenningin sagði til um, heldur gáfu allar plönturnar gular baunir. Þá prófað Mendel að æxla þeim plöntum saman og í það skiptið urðu 75% baunanna gular og 25% baunanna grænar.

Hlutföllin skýrast af því sem kallast ríkjandi og víkjandi erfðir. Ástæðan er sú að genið sem gefur baununum gula litinn er ríkjandi. Ef plöntueinstaklingur erfir eitt gen sem skráir fyrir gulum baunum og eitt gen sem skráir fyrir grænum baunum þá ræður genið sem skráir fyrir gulum hvað lit baunirnar fá. Til að baunirnar fái grænan lit þarf plantan að erfa tvö eintök sem skrá fyrir grænum lit.

Það má segja að Mendel hafi verið heppin hvað varðar val á tilraunalífveru því eiginleikarnir sem hann prófaði stjórnast af einu geni, svo kallaðar eingenaerfðir. Slíkar erfðir eru ekki sérlega algengar en flestar erfðir stjórnast af samspili margra gena. Hins vegar var Mendel ekki jafn heppin þegar kom að því að kynna niðurstöður sínar og fræðimenn þess tíma tóku ekki mikið mark á niðurstöðum hans. Það var í raun ekki fyrr en eftir að dagar Mendels voru taldir sem hann fékk þá viðurkenningu sem hann á svo sannarlega skilið fyrir vinnu sína.

Í dag hefur Mendel þann heiður að vera kallaður faðir erfðafræðinnar enda spilaði hann stóru rullu í því að leiða í ljós þann sannleika sem nú er viðurkenndur og unnið eftir innan erfðafræðinnar.

Heimild: Biography

Lesið einnig Fróðleiksmola Hvatans Hvað er DNA?