iucn-red-list-logo-red

Alþjóðlegu náttúruverndarsamtökin (IUCN) hafa starfrækt svokallaðan válista eða “rauðan lista“ frá árinu 1964. Listinn flokkar tegundir lífvera í flokka eftir því hver staða þeirra er og er listinn ýtarlegasta skrá þess efnis sem við búum yfir.

Yfirlýstur tilgangur listans er fjórþættur:

  1. Að útvega vísindalegar upplýsingar um stöðu tegunda og unditegunda á heimsvísu
  2. Vekja athygli á umfangi og mikilvægi þeirra ógna sem stafa að líffræðilegum fjölbreytileika
  3. Að hafa áhrif á alþjóðlegar og þjóðlegar stefnumótanir og ákvarðanatökur
  4. Að útvega upplýsingar til að leiðbeina verndaraðgerðum

Á rauða listanum eru tegundir flokkaðar í níu flokka og er eitt af markmiðum IUCN að fara yfir stöðu hverrar tegundar á fimm ára fresti og færa tegundir til um flokka ef þess þarf. Flokkarnir eru eftirfarandi:

Extinct: Útdauð tegund, engir einstaklingar af tegundinni þekktir.
Extinct in the wild: Tegundin er útdauð í náttúrunni. Aðeins er einstaklingar af tegundinn í haldi mannfólks eða utan upprunalegs búsvæðis.
Critically endangered: Tegundin er í mikilli útrýmingarhættu og mikil hætta er á því að tegundin deyji út í náttúrunni.
Endangered: Tegundin er í útrýmingarhættu, hætta er á því að tegundin deyji út í náttúrunni.
Vulnerable: Tegundin er í viðkvæmri stöðu og mikil hætta er á að tegundin verði brátt í útrýmingarhættu.
Near threatened: Líklegt að tegundinni verði í útrýmingarhættu í framtíðinni.
Least concern: Lítil hætta á því að tegundin verði í útrýmingarhættu í náinni framtíð.
Data deficient: Gögn vantar upp á svo hægt sé að meta stöðu tegundarinnar.
Not evaluated: Tegundin hefur ekki verið metin.

Að svo stöddu hafa yfir 76.000 tegundir verið metnar fyrir rauða listann og er markmið IUCN að þær verði orðnar 160.000 árið 2020. Það eru margir hópar sem koma að því að flokka tegundir í réttan flokk, þar má meðal annars nefna BirdLife International, Institute of Zoology, World Conservation Monitoring Centre auk sérfræðinga innan IUCN.

Á vefsíðu IUCN er auðvelt að skoða þær tegundir sem búið er að meta með því að slá inn nafn tegundarinnar í leitarglugga síðunnar. Þannig er hægt að sjá í hvaða flokk tegundin fellur en auk þess fást ýtarlegar upplýsingar um tegundina.