sleeping-baby

Sjúklingar sem dvelja á gjörgæsludeild í lengri tíma glíma við þann vanda að umhverfið þar er ekki mjög svefnvænt, enda oft mikill umgangur og ljósmengun á sjúkrahúsum. Þetta gæti þó breyst til hins betra ef marka má niðurstöður nýrrar rannsóknar sem birt var í tímaritinu Critical Care.

Í rannsókninni var þáttur hormónsins melatónín í svefni skoðaður en líkaminn framleiðir melatónín þegar dimmt er og veldur því að við þreytumst. Lengi hefur verið vitað um virkni melatóníns og er það til dæmis notað sem meðferð gegn svefntruflunum og til að hjálpa fólki að komast yfir flugþreytu.

Rannsóknin skoðaði 40 heilbrigða einstaklinga. Þar sem að markmið hópsins er að hjálpa sjúklingum á gjörgæslu að sofa vel, þrátt fyrir truflandi umhverfi, var útbúin gervigjörgæsla. Viðfangsefnin gistu í fjórar nætur á deildinni og voru truflaðir reglulegar með hljóðum og ljósum. Eftir fyrstu fjórar næturnar var hópnum skipt í fernt og fengu þeir lyfleysu, 1 mg af melatóníni, eyrnatappa og augngrímu eða ekki neitt.

Í ljós kom að þeir sem fengu melatónín sváfu marktækt betur og voru lengur í REM svefni en þeir sem fengu eyrnatappa á augngrímu. Niðurstöðurnar benda til þess að melatónín hjálpi fólki bæði að sofna og eyða meiri tíma í REM svefni í háværu umhverfi og við aðrar aðstæður sem raska svefni.

Vonast er til þess að niðurstöðurnar muni hjálpa sjúklingum á gjörgæslum að ná sér fyrr með því að þeir fái betri hvíld en einnig gætu þeir sem eiga erfitt með svefn heima fyrir, vegna hávaða og ljósmengunar, ef til vill nýtt sér melatónín í framtíðinni.