Bats-at-Tomohon-Traditional-Market-Tomohon-Sulawesi-Indonesia

Meirihluti sjúkdóma sem sýkja menn eiga uppruna sinn í villtum dýrum og er algengt að sjúkdómar smitist beint á milli manna og dýra. Slíkir sjúkdómar kallast súnur og geta þær í mörgum tilfellum valdið miklum skaða. Leðurblökur er ein þeirra dýrategunda sem rekja má marga sjúkdóma til og má þar til dæmis nefna ebólu og hundaæði.

Hingað til höfum við haft lítinn skilning á því hvernig sjúkdómar berast frá leðurblökum í menn og stafar það að miklu leiti af því að við þekkjum illa hversu oft og hvernig menn komast í snertingu við leðurblökur. Ný rannsókn hefur nú varpað ljósi á ástæðurnar sem liggja þar að baki en niðurstöður hennar voru birtar í tímaritinu Emerging Infectious Diseases þann 15. júlí.

Í rannsókninni skoðuðu vísindamenn þrjá bæi í Ghana á árunum 2011 og 2012. Um 1.270 manns svöruðu könnunum um samskipti þeirra við leðurblökur. Í ljós kom að um 37% svarenda hafði verið bitinn, klóraður eða komist í snertingu við þvag dýranna sem allt eru mögulegar smitleiðir. Auk þess hafði um helmingur þátttakenda komið inn í leðurblökuhelli. Ekki voru margir sem komust í snertingu við leðurblökur í sínu daglega lífi eða við vinnu eða aðeins 17% svarenda. Að lokum leiddu niðurstöðurnar í ljós að um 45% þátttakenda hafði borðað leðurblökur. Ekki er talið að rétt matreidd fæða sé líklega smitleið en ætla má að þeir sem undirbúa leðurblökurnar til séu í áhættuhópi.

Niðurstöðurnar varpa ljósi á það í hversu mikilli snertingu fólk á svæðinu er við leðurblökur. Rannsóknir sem þessar eru mikilvægur liður í því að skilja smitleiðir sjúkdóma til þess að auðveldara sé að koma í veg fyrir þá og útbreiðslu þeirra.