Mynd: Felipe Dana
Mynd: Felipe Dana

Alþjóðaheilbrigðistofnunin hefur gefið út viðvörun vegna lítt þekkts sjúkdóms af völdum zika veirunnar sem berst á milli manna með moskítóflugum. Talið er að sjúkdómurinn sé orsök þess að þúsundir barna í Brasilíu hafa fæðst með dverghöfuð í fyrra..

Zika veiran var fyrst greind í öpum í Afríku árið 1947 en hafði þar til í fyrra aðeins valdið stuttum faröldrum í mönnum í Afríku, Asíu og í Karabíahafinu. Breyting varð á þessu í Maí 2015 þegar veiran greindist í fyrsta sinn í Brasilíu. Síðan þá hefur veiran breiðst hratt út í Suður-Ameríku og hefur hún nú verið greind í 21 landi í Karabíahafinu, Norður- og Suður-Ameríku.

Í um 80% tilfella sína þeir sem smitast hafa af zika veirunni engin einkenni og er helsta áhyggjuefnið falið í áhrifum hennar á fósturþroska. Talið er að veiran geti haft áhrif á það hvernig heilinn þroskast í móðurkviði, það er að börn fæðist með óvenju lítinn heila og höfuð, svokallað dverghöfuð. Í Brasilíu hefur verið gríðarleg aukning í fæðingum barna með dverghöfuð og hafa 3.500 tilfelli verið tilkynnt síðan í október 2015. Til samanburðar voru aðeins tæp 150 tilfelli greind í Brasilíu árið 2014.

Af þessari ástæðu hefur Aljóðaheilbrigðisstofnunin bent barnshafandi konum að fara sérstaklega varlega og mæla með því að þær heimsæki lækni bæði fyrir og eftir ferðir til svæða þar sem veiran hefur greinst. Yfirvöld í Kólumbíu, Ecuador, El Salvador og Jamaica hafa gengið enn lengra og mælt með því að konur þar í landi fresti því að verða þungaðar þar til meira er vitað um veiruna.