treadmill

Vísindamenn við University of Southern California hafa uppgötvað hormón, MOTS-c, sem eykur efnaskipti í músum, vinnur gegn þyngdaraukningu og virðist geta lagfært insúlín næmni á svipaðann hátt og líkamsrækt gerir.

Rannsóknin, sem birt var í Cell Metabolism, byggðist á því að sprauta hormóninu MOTS-c í mýs sem voru aldar á fæðu með háu fituhlutfalli. Við eðlilegar aðstæður fitna mýs, líkt og menn, á slíku fæði og geta þróað með sér insúlín ónæmi. Í ljós kom að mýsnar fitnuðu hvorki né þróuðu með sér ónæmi fyrir insúlíni. Ekki nóg með það heldur tókst þeim með þessari aðferð að snúa við aldurstengdu insúlínónæmi, sem getur leitt til sykursýki.

MOTS-c hormónið er einnig merkilegt að því leiti að það er kóðað í DNA hvatbera en ekki kjarna frumna eins og önnur hormón. Chang Lee, fyrsti höfundur greinarinnar, segir uppgötvunina sýna hvatbera í nýju ljósi sem stjórnstöð efnaskipta.

Þar sem að rannsóknin var framkvæmd á músum er enn óvíst er hvaða áhrif hormónið kæmi til með að hafa í mönnum. Rannsóknarhópurinn vonast til þess að geta hafið prófanir á mönnum á næstu þremur árum og binda þeir vonir við að frekari þekking á hormóninu geti hjálpað okkur að finna ný meðferðarúrræði fyrir aldurstengda sjúkdóma, líkt og sykursýki.

Lesa má fréttatilkynningu rannsóknarhópsins hér.