Ice-or-heat

Það fyrsta sem kemur uppí hugann við tognun eða önnur meiðsl í vöðva er að kæla svæðið sem slasast. Þetta hefur verið gert í fjölda ára og kannski veit enginn lengur hvers vegna. Jonathan Peake og samstarfsfólk ákvað að skoða hvaða áhrif það hefur raunverulega á vöðvann að kæla strax eftir meiðsl.

Til að skoða áhrifin var notast við mýs, sem fengu mismunandi meðhöndlun eftir vöðvameiðsl, annar hópurinn fékk ís innan við 5 mínútum eftir meiðsl og var ísinn látinn liggja á slasaða svæðinu í 20 mínútur. Hinn hópurinn fékk enga meðferð eftir meiðsl. Síðan voru slösuðu svæðin skoðuð með tilliti til bólguþátta og annarra merkja (prótína) um vefjauppbyggingu. Frá þessu var sagt á ráðstefnu American Physiological Society sem ber nafnið Experimental Biology.

Í ljós kom að mýs sem ekki höfðu fengið kælandi meðferð voru fljótari að jafna sig en þær sem meðferðina höfðu fengið. Bólgumyndandi frumur komu seinna til í hópnum sem fékk kælingu miðað við hópinn sem ekki fékk meðferð. Það sama á við um prótín sem benda til að vefjauppbygging sé hafin á meidda svæðinu. Eftir 7 daga voru bólgumyndandi þættir farnir að aukast sjá ís-hópnum en þá var vefjauppbygging lengra á veg komin hjá viðmiðunarhópnum. Á degi 28 voru hóparnir orðnir sambærilegir með tilliti til meidda svæðisins.

Þessar niðurstöður benda til þess að kæling meiðsla gætu hugsanlega verið að hægja á viðgerðum líkamans. Bólga getur verið jákvæð við réttar aðstæður en ástæðan fyrir því að við erum gjörn á að kæla er hugsanlega sú að bólga getur verið sársaukafull, kuldinn slær bæði á bólgurnar og deyfir svæðið svo sársaukinn minnkar. Þrátt fyrir það, gæti verið betra að harka bara af sér.