vaccine

Bóluefni eru efni sem virkja ónæmiskerfið til að verjast ákveðnum prótínum. Oftast miða bóluefnin á að verjast veirum eða bakteríum og eru bóluefnin þá samsett úr prótínum sem tilheyra þeirri lífveru. Hlutverk ónæmiskerfisins í viðnámi gegn krabbameinum er alltaf að verða skýrara og skýrara, en hlutverk þess er líka margþætt.

Nýjasta bóluefnið sem notað er til að bólusetja gegn HPV gefur vernd gegn níu mismunandi HPV stofnum. HPV eða human papillimavirus sýkir mjög hátt hlutfall fólks og smitast m.a. við kynmök. HPV er vírus sem innlimast inná erfðaefni svo smitaður einstaklingur losnar aldrei við vírusinn. Með tímanum getur HPV valdið breytingum í erðfaefninu sem leiðir til krabbameinsmyndunar. Þess vegna er oft talað um að bólusetja gegn krabbameinum, þó það sé ekki alveg nákvæmt hugtak.

Ný rannsókn, sem birt var í Journal of the National Cancer Institute sýnir að DNA úr veirunni finnst í krabbameinum úr ansi mörgum líffærum og mun bólusetning gegn HPV sem verndar gegn a.m.k. 9 stofnum veirunnar hjálpa til við að minnka áhættuna á að fá krabbamein.

Á sama tíma og HPV bólusetningin er að gera góða hluti vill heimurinn nú fá að njóta annarra bólusetninga sem Kúbverjar hafa fundið gegn lungnakrabbameini. Lyfið er eilítið frábrugðið að því leiti að krabbameinssjúklingar fá bóluefnið en það virkar ekki fyrirbyggjandi. Það sem lyfið gerir er að það örvar myndun mótefna gegn epidermal growth factor (EGF), prótín sem framleitt er í miklu magni í lungnakrabbameinum. Mótefnin bindast við EGF og hindrar þannig virkni þess, sem er að örva frumuskiptingar ásamt því að eyða frumum sem eru bundnar við EGF. Wired fjallaði um málið fyrir stuttu í kjölfar þess að Kúbverjar og Bandaríkjamenn virðast vera að ná sáttum en með því opnast einnig möguleiki fyrir Bandaríkjamenn að nýta vísindalegar uppgötvanir Kúbverja.

Svo virðist vera að bólusetningar og ferlar ónæmiskerfisins séu enn ein leiðin til að meðhöndla krabbamein. Þessi tvö lyf eru aðeins dæmi um þá ferla ónæmiskerfisins sem hægt væri að nýta til meðhöndlunar. Bæði lyfin eru að skila tilætluðum árangri sem þýðir fækkun krabbameinstilfella og lengri líftíma sjúklinga.