Margir foreldrar hafa upplifað misvísandi skilaboð sérfræðinga um hversu mikla athygli eigi að veita nýfæddum börnum. Þeir sem eru af gamla skólanum telja kannski líklegt að með miklu knúsi og kjassi sé verið að ýta undir frekju hjá barninu.

Samkvæmt rannsókn sem var birt í Development and Psychopathology eru slíkar fullyrðingar alrangar og gætu jafnvel verið skaðlegar. Rannsóknarhópurinn sem staðsettur er við University of British Columbia, sýnir raunar að knús og kossar örva þroska barnanna.

Til að skoða hvort faðmlög hefðu áhrif á börnin voru foreldrar 94, fimm vikna, barna beðin um að halda dagbók um hegðun barnsins og viðbrögð sín við þeim. M.a. voru foreldrarnir beðnir um að skrá hvernig barnið svaf, hversu oft það drakk og hversu mikið það grét eða kvartaði. Að auki voru foreldrar beðnir að skrá hvernig þeir sinntu barninu í slíkum tilfellum.

Þegar börnin voru orðin 4 og 1/2 árs var fengin blóðprufa hjá börnunum til að skoða þroska erfðaefnisins. Þegar við þroskumst, innan og svo utan móðurkviðar, eru frumurnar okkar allar að taka á sig það hlutverk sem þær ætla að viðahalda út æviskeiðið. Hluti af því að finna sitt hlutverk er að skilgreina hvaða gen af erfðamenginu á að tjá, hvar og í hvaða magni. Til að stjórna þessu nota frumurnar ýmis tæki og tól, en eitt þeirra kallast metýlering á erfðaefninu.

Það voru einmitt þessi stjórntæki sem voru viðfangsefni rannsóknarhópsins, en þau leituðu að svæðum sem höfðu mismunandi metýleringarmynstur milli hópanna. Í ljós kom að fimm svæði á erfðaefninu sýndi mismunandi metýleringu milli þeirra barna sem fengu mikla líkamlega snertingu samanborið við börn sem fengu litla líkamlega snertingu.

Þegar metýleringarmynstrin voru borin saman við það sem er þekkt í fullorðnum einstaklingi, kom í ljós að börn sem upplifðu mikla líkamlega snertingu voru nær mynstri fullorðins einstaklings en þau börn sem upplifðu litla líkamlega snertingu. Með öðrum orðum mætti segja að börn sem fá mikið af knúsi ná fyrr þeim þroska sem frumurnar þurfa að ná til að sinna réttu hlutverki.

Næsta skref hópsins er að skoða hvort tjáning gena sem tengjast breytilegu svæðunum er mismunandi milli barna sem fá mikla eða litla snertingu. Síðan verður mjög áhugavert að sjá hvort einhver mælanlegur munur sé á þroskastigi einstaklingum innan þessara hópa.