Lesendur Hvatans hafa nú líklega tekið eftir vaxandi áhuga vísindahópa um heim allan á örveruflóru mannsins. Áhuginn er ekki úr lausu lofti gripinn, örveruflóran hefur gríðarleg áhrif á heilsu okkar og líðan. Hvernig við högum okkur, hvað við borðum og hversu mikið við hreyfum okkur hefur áhrif á samsetningu örveruflórunnar okkar og þá ber að varast athafnir sem geta dregið úr fjölbreytileika örveruflórunnar eða örva vöxt óæskilegra baktería.

Að veipa er tiltölulega nýtilkominn siður og hafa margir reykingamenn notað veipið sem hjálpartæki til að losna undan reykingunum. Veipið hefur því óneitanlega reynst mörgum vel en þó eru á því ýmsar neikvæðar hliðar. Í dag má segja að rannsóknir á veipi séu of stutt á veg komnar til að fullyrða nokkuð um hollustu eða óhollustu þess, en það bætist í þá flóru nær daglega.

Ein slík rannsókn var birt í vísindaritinu PeerJ í vikunni. Þar er örveruflóra 30 einstaklinga, sem reykja, veipa eða gera hvorugt, skoðuð. Sýni voru tekin úr munni, þar sem reykurinn eða gufan kemst í beina snertingu við bakteríurnar en einnig voru saursýni skoðuð til að sjá hvort einhverra áhrifa gætti í meltingafærunum.

Helstu niðurstöður voru þær að veip hafði ekki marktæk áhrif á örveruflóru í meltingavegi. Í einstaklingum sem reyktu sáust hins vegar skýr áhrif. Fjölbreytileiki örveruflórunnar var marktækt minni, samanborið við hópinn sem ekki reykti, auk þess sem bakteríur af ættkvíslinni Prevotella var að finna í marktækt meira magni meðal reykingamanna. Á sama tíma var marktæk fækkun á bakteríum af ættkvíslinni Bacteroides.

Í grófum dráttum má segja að Prevotella hafi neikvæð áhrif í samlífi hennar við manninn, en hún hefur m.a. verið tengd við auknar líkur á krabbameinsmyndun. Að sama skapi hefur ættkvíslin Bacteroides verið talin verndandi svo þróunin sem hér sést er ekki sérlega jákvæð.

Þó rannsóknin sé smá í sniðum þá má samt sem áður draga af þessu þá ályktun að af tvennu illu er veipið klárlega skárri kostur. Best er samt auðvitað að sleppa allri notkun nikótíns og annarra ávanabindandi efna. Næstu skref eru að skoða hvort sömu áhrifa gæti í stærri of þá fjölbreyttari hóp.