missinglinkf_0

Grein sem birt var í Nature sannar að ekki er enn allt vitað um líffærafræði mannslíkamanns. Svo virðist sem að í líkamanum séu áður óþekktar vessaæðar sem tengja saman ónæmiskerfið og heilann. Uppgötvanir sem þessar krefjast mikilla rannsókna áður en þær eru staðfestar en ef rétt reynist gæti uppgötvunin haft áhrif á rannsóknir á mörgum sjúkdómum, meðal annars MS og Alzheimer’s.

Einn höfundur greinarinnar, Jonathan Kipnis við Háskólann í Virginíu, sagði í fréttatilkynningu að uppgötvunin gæti gjörbreytt því hvernig við lítum á samspil tauga- og ónæmiskerfisins. Hingað til hefur tengin verið talin illrannsakanlega en nú opnist á þann möguleika að rannsaka hana á vélfræðilegan hátt.

En hvernig finna vísindamenn æðar sem engum öðrum hefur tekist að finna? Í þessu tilfelli var það Dr. Antoine Louveau, einn vísindamannanna sem vinnur með Kipnis, sem skoðaði heilahimnur músa. Í einu sýninu tók hann eftir því að T-frumurnar röðuðust línulega og kallaði á Kipnis til að kanna málið.

Eins og sönnum vísindamönnum sæmir var Kipnis fullur efasemda í fyrstu en við frekari rannsóknir kom í ljós að æðarnar eru raunverulegar og flytja hvít blóðkorn. Svo virðist sem að æðarnar eigi upptök við augun og liggja við lyktarklumbu og má sjá hvernig þær liggja á myndinni hér að ofan. Æðarnar eru að mörgu leiti líkar þeim sem er að finna í vessaæðakerfi líkamans en eru þó ólíkar þeim að nokkru leiti. Meðal annars eru þær einfaldari að gerð og grennri, sem gæti skýrt hvers vegna enginn hefur fundið þær áður.

Ljóst er að uppgövunin gæti opnað margar dyr varðandi rannsóknir á fjölmörgum sjúkdómum en tíminn einn mun leiða í ljós hversu mikinn þátt þessar nýuppgötvuðu vessaæðar spila.