youth

Leitin að hinni eilifu æsku hefur borið árangur, að minnsta kosti á sviði hjarta- og æðasjúkdóma. Rannsókn sem unnin var við University of California San Francisco (UCSF) sýnir að einstaklingar sem þjást af hjarta- og æðatengdum kvillum eru minna líklegir til að deyja úr þeim kvilla ef þeir eru með mikið af ákveðnum prótínum í blóðinu.

Prótínin heita Growth differentiation factor 11 (GDF11) og Growth differentiation factor 8 (GDF8). GDF11 er prótín sem áður hefur verið sýnt fram á að komi við sögu endurnýjun frumna í gömlum músum. Rannsóknarhópurinn við UCSF vildi skoða hvaða áhrif prótínið og skyld prótín gætu haft í mönnum. Viðfangsefni rannsóknarinnar taldi hátt í 2000 manns sem öll þjáðust af einhvers konar hjarta- og æðasjúkdómum. Í upphafi rannsóknarinnar var magn prótínanna beggja mælt í blóði og síðan var fylgst með líðan einstaklinganna í tæp 9 ár.

Rannsóknin leiddi í ljós að þátttakendur sem voru með mikið magn af prótínunum í blóði voru minna líkleg til að upplifa óþægindi eða kvilla tengdum sjúkdómnum þeirra. Ekki var hægt að greina á milli hvort GDF11 eða GDF8 hefur þessi áhrif þar sem prótínin hafa mjög líka byggingu og því ekki mögulegt annað en að mæla bæði prótínin í einu.

Ef fleiri rannsóknir staðfesta þessar niðurstöður er möguleiki að þarna sé á ferðinni nýtt lyf sem hægt verður að nota fyrir einstaklinga sem greinast með einhvers konar hjarta- og æðasjúkdóma og þannig halda áhrifum þeirra niðri.