Hay-fever

Nú þegar páskunum er lokið fer (vonandi) að styttast í að vorið láti sjá sig. Þó að það sé vissulega gleðiefni eru fjölmargir sem kvíða frjókornaofnæminu sem því getur fylgt. En af hverju fáum við frjókornaofnæmi og af hverju er tíðni þess að aukast í heiminum?

Þegar við fáum ofnæmi reynir ónæmiskerfið okkar, sem yfirleitt sér um að verja okkur fyrir sjúkdómum og sýkingum, að verjast saklausum efnum svo sem frjókornum, ryki eða ákveðnum fæðutegundum. Sökudólgurinn þegar kemur að ofnæmi virðist aðallega vera flokkur mótefna sem nefnist immúnóglóbúlín E (IgE). IgE binst frumum sem nefnast mastfrumur og í kjölfarið víkka æðar og við fá einkenni ofnæmis, til dæmis nefrennsli og roða í augu.

Tíðni frjókornaofnæmis hefur verið að aukast í heiminum og virðist vera að því ríkari sem þjóðir verða því fleiri íbúar þeirra þjást af frjókornaofnæmi. Ein skýringin á því að sífellt fleiri þjást af ofnæmi í þróuðum ríkjum gæti verið að við lifum við of hreinlegar aðstæður og ónæmiskerfið okkar fái hreinlega ekki nógu mikla þjálfun og sé fyrir vikið líklegra til að bregðast harkalega við skaðlausum efnum.

Erfðir spila einnig stórt hlutverk í ofnæmi en börn sem eiga foreldra sem þjást af ofnæmi eru líklegri til að fá þau sjálf. Börn hafa þó ekki endilega ofnæmi fyrir sömu hlutum og foreldrarnir en rannsóknir hafa þó sýnt að eineggja tvíburar eru yfirleitt með sama ofnæmi.

Í myndbandinu hér að neðan er ofnæmi útskýrt nánar á skemmtilegan hátt af It’s Okay to be Smart.