summer-2

Nú er sumarið brátt á enda og stutt í að haustið taki við. Margir kannast við það að verða síður veik á sumrin en yfir dimmari og kaldari tíma ársins. Nú telja vísindamenn að hluti ástæðunnar sé fundin.

Samkvæmt rannsókn, sem gerð var við Cambridge háskóla, virðist vera að ónæmiskerfi okkar sé breytilegt eftir árstímum. Þetta hefur ekki eingöngu áhrif á kvef og aðrar pestir heldur virðast margir sjúkdómar, líkt og hjartasjúkdóma og liðagigt vera verri yfir vetrartímann. Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar breytist virkni næstum fjórðungs gena okkar eftir árstímum eða 5.136 af þeim 22.822 genum sem skoðuð voru. Sum genanna sem skoðuð voru í rannsókninni voru virkari yfir sumartímann en önnur yfir vetrarmánuðina. Einnig tók rannsóknarhópurinn eftir því að árstíðirnar virðast hafa áhrif á ónæmisfrumur, samsetningu blóðs og fitu líkamans.

Þetta er í fyrsta skipti sem vísindamönnum hefur tekist að sýna fram á að árstíðabundnar sveiflur í sjúkdómum gætu verið tengdar breytingum á ónæmiskerfinu yfir árið. Niðustöðurnar gætu hjálpað vísindamönnum að skilja hvernig best er að meðhöndla ýmsa sjúkdóma, til dæmis sykursýki 1 og þunglyndi, með tilliti til árstíma í framtíðinni.

Hægt er að lesa nánar um rannsóknina í frétt Science Daily og í greininni sjálfri sem birt var í Nature Communications.