alcohol

Áfengisnotkun getur verið flókið fyrirbæri þar sem samfélagið hvetur til hóflegrar áfengisneyslu, en margir geta átt í erfiðleikum með hóflega partinn. Víman sem áfengið veldur eru auðvitað, eins og með önnur vímuefni, eituráhrif og því ekki endilega gott að neyta efnisins, þrátt fyrir að lögin gefi okkur leyfi til þess.

Margar rannsóknir hafa nú þegar sýnt að því lengur sem ungmenni fresta því að hefja neyslu áfengis þeim mun minni líkur eru á að þau þrói með sér alkahólisma eða leiðist útí neyslu annarra vímuefna. Ný rannsókn á rottum sýnir að drykkja á unglingsárum getur haft varanleg áhrif á þroskun heilans og valda breytingum á utangenaerfðum.

Utangenaerfðir kallast það þegar erfðaefninu er breytt til að annars vegar opna það fyrir tjáningu gena eða hins vegar koma í veg fyrir að ákveðin gen eru tjáð. Stundum eru þessar merkingar á DNA-inu sjálfu eða gen eru merkt til tjáningar eða þöggunnar með pökkun á DNA-inu. Erfðaefninu er pakkað utan um prótín sem heita histón-prótín. Með pökkuninni verður aðgengi að genunum erfiðara og þannig stjórnar pökkunin tjáningu af genunum.

Í rannsókninni var rottum gefið áfengi á 28. degi eftir got. Þær fengu síðan áfengi reglulega fram að degi 41. Eftir það var þeim í sjálfsvald sett hvort þær drykkju vatn eða áfengi. Rottur sem höfðu fengið áfengi þegar þær voru yngri, sóttu frekar í að drekka áfengi á seinni stigum og að auki sýndu þær af sér kvíðatengda hegðun. Þetta samsvarar vel þeirri þekkingu sem við höfum á tengingu áfengisneyslu og geðraskana.

Til að skoða enn frekar hvaða ferlar fóru í gang skoðuðu Subhash Pandey og samstarfsfólk hans tjáningu gena í möndlu, amygdala, sá hluti heilans sem sér um minningar, tilfinningar og ákvarðanatöku. Möndlurnar eru tvær í mannsheila og fyrri rannsóknir hafa sýnt tengingu milli misferla í möndlu og óstjórnar við áfengis og vímuefnanotkun.

Þegar genatjáning var borin saman í rottum sem höfðu fengið áfengi og þeirra sem ekki höfðu fengið áfengi kom heilmikill munur í ljós. Í rottum sem drukku áfengi var DNA-ið þéttar pakkað og lítil tjáning í gangi. Að auki var þar meira magn af prótíninu HDAC2 sem sér um pökkun á DNA. Af þessu dró hópurinn þá ályktun að áfengið hefði áhrif á utangenaerfðir með því að koma í veg fyrir tjáningu á erfðaefninu. Næstu skref eru að skilgreina betur hvaða gen eru þögguð við áfengisneyslu.

Niðurstöður þessar sýna hvernig áfengisdrykkja ungmenna eykur líkurnar á geðröskunum á fullorðinsárum. Þessar niðurstöður renna sterkari stoðum undir fyrri niðurstöður þar sem áfengisnotkun ungmenna sést auka líkurnar á ofneyslu áfengis sem og annarra fíkniefna seinna á lífsleiðinni. Áhrifin af áfengisneyslunni höfðu áhrif á rotturnar á fullorðins árum, ekki einungis á þeim tíma sem áfengis var neytt, en þess ber þó að geta að rotturnar sóttu áfram í áfengi á fullorðinsárum. Það er því mikilvægt að fresta neyslu áfengis eins lengi og kostur gefst og reyna svo, eins og með svo margt annað, að gæta hófs í neyslunni.