drunk and eating

Kemur þessi fyrirsögn þér ekki á óvart? Ert þú ein/n af þeim sem klárar djammið á Hlöllabátum eða Nonnabita? Vissulega er eðlilegt að vera svangur eftir margra klukkustunda næturbrölt. Ný rannsókn bendir þó til þess að átið stjórnast ekki eingöngu af svengd heldur hefur áfengi bein áhrif á löngun okkar til að borða.

Rannsóknin var nýlega birt í tímaritinu Obesity. Í rannsókninni fá 35 konur áfengi eða saltlausn í æð, allar konurnar fóru í gegnum báðar meðferðir. Eftir meðferð var konunum gefið að borða og var þá fylgst með því hversu mikið þær borðuðu og að auki tekið heilalínurit.

Það kom rannsóknarhópnum ekki á óvart að eftir meðhöndlun með áfengi borðuðu konurnar meira en eftir meðhöndlun með saltlausn. Það sem er hins vegar merkilegra er að heilalínuritin sýndu aukna virkni í undirstúku kvennanna eftir áfengismeðhöndlun og virtist kvikna á henni þegar konurnar fundu lykt af mat. Þessar niðurstöður eru sérstaklega áhugaverðar sé það haft í huga að undirstúkan sér m.a. um að halda matarlyst í jafnvægi.

Einn af höfundum greinarinnar benti á í fréttatilkynningu um rannsóknina að þættir á borð við áfengisneyslu gætu vel lagt sitt af mörkum við þyngdaraukningu þjóða, á borð við það sem Bandaríkjamenn eru að kljást við og það sama gildir raunar um Ísland.

Þeir sem eru að reyna að passa uppá aukakílóin ættu því kannski að íhuga að skera niður í áfenginu, ekki einungis vegna þess að áfengir drykkir geta verið mjög hitaeiningaríkir heldur einnig vegna þess að áfengið hvetur líkamann til óhóflegs áts.