Mynd: Huffington post
Mynd: Huffington post

Það hefur vakið furðu margra hvers vegna þroskafrávikum barna virðist fara fjölgandi í heiminum. Þessa fjölgun má auðvitað að miklu leiti skýra með betri skilgreiningum á þeim frávikum sem eru til auk þess sem tækni okkar til að greina þau er alltaf að batna. Sérfræðingum ber þó ekki alltaf saman um hvort það skýri alla fjölgunina, mögulega er einhver hluti þroskafrávika sem við sjáum hluti af nútímavæðingu samfélagsins og horfir fólk þá gjarnan á matarræðið í því samhengi.

Því er ekki hægt að neita að að meðaltali er matarræði manna á vesturlöndum í dag mun óhollara en það sem tíðkaðist hér fyrir nokkrum áratugum síðar. Sem dæmi leyfum við okkur mun meira af unnum matvælum sem við vitum ekki alltaf hvað innihalda og hafa þar að auki oft lægra næringagildi en sama magn af óunninni matvöru.

Í rannsókn sem unnin var við King’s College voru tengsl matarræðis við hegðunarvandamál barna rannsökuð. Skoðuð voru rúmlega 160 börn og mæður þeirra. Mæðrunum var skipt í tvo flokka eftir því hvers konar matarræðis þær neyttu á meðan á meðgöngu stóð. Annars vegar hollt matarræði og hins vegar óhollt matarræði þar sem mikil fita og mikil sykurneysla voru helstu viðmiðunarþættir.

Í ljós kom að börn mæðra sem töldust neyta óholls matarræðis sýndu hærri tíðni metýleringar á geni sem kallast IGF2 (insulin like growth factor-2). Metýlering á genum eða svæðum tengdum genum kallast utangenaerfðir eða epigenetics og hefur áhrif á tjáningu genanna, hægt er að lesa sér betur til um það í fróðleiksmola Hvatans um utangenaerfðir. Almennt þýðir aukin metýlering minni tjáningu á genunum.

Vitað er að IGF2 gegnir lykilhlutverki í fósturþroska við þroskun heilans og taugakerfisins. Þau börn sem sýndu aukna metýleringu voru líka í aukinni áhættu um að sýna einhvers konar hegðunarvanda á borð við ADHD. Þessar niðurstöður benda því til þess að heilbrigt og gott matarræði á meðgöngu er einstaklega mikilvægt fyrir þroskun allra líffæra fóstursins, þar með talið taugakerfisins. Frekari rannsókna er þó þörf til að skilgreina betur áhættuþætti og hversu mikil áhættan er.