Neysla skordýra hefur lengi vel verið litin hornauga ì vestrænu samfélagi en fjölmargir fræðimenn hafa þó bent á kosti þess að snúa sér að skordýraáti. Má þar helst nefna þann kostnað sem umhverfið ber af ræktun dýra. Skordýr eru, ennþá a.m.k., að finna í miklu magni í náttúrunni og fæst þeirra teljast í útrýmungahættu. Það að auki eru skordýr einnig góð uppspretta prótína og fitu, sem og trefja.

Ofantalið virðast þó ekki vera einu kostir skordýraneyslu, en samkvæmt nýbirtri rannsókn gæti neysla á krybbum einnig haft jákvæð áhrif á örveruflóruna í meltingarvegi. Rannsóknin fór fram í bandaríska háskólanum University of Wisconsin-Madison og var þar fylgst með 20 heilbrigðum einstaklingum, sem bættu krybbum í fæðuna hjá sér.

Hópnum var skipt í tvennt og fékk helmingurinn 25 grömm af krybbumjöli útá morgunmatinn sinn, meðan hinn helmingurinn fékk samskonar morgunmat, án viðbótarefna. Eftir tveggja vikna meðhöndlun var gert hlé í tvær vikur og síðan var hlutverkunum snúið við, svo úr fengust gögn fyrir báða hópa sem meðhöndlunarhópur og sem viðmiðunarhópur.

Tekin voru saur- og blóðsýni úr öllum einstaklingum fyrir og eftir meðhöndlun, í bæði skiptin. Með blóðsýnunum voru heilsufarsþættir þátttakenda skoðaðir, svo sem blóðsykur og styrkur ákveðinna bólguþátta sem og styrkur ensíma sem hægt er að nota til að meta starfsemi lifrarinnar.

Saursýnin voru notuð til að meta samsetningu bakteríuflórunnar og var miðað á að skoða bakteríur sem þekktar eru fyrir að hafa jákvæð áhrif á heilsuna, það er svokallaðar probiotics. Til slíkra baktería teljast meðal annars bakteríur af tegundinni Bifidobacterium animalis sem rannsóknarhópurinn leitaði sérstaklega eftir.

Eftir neyslu krybbumjölsins jókst tíðni Bifidobacterium animalis að meðaltali 5,7 falt í meltingarvegi þátttakanda. Á sama tíma minnkaði styrkur TNF-α í blóði. TNF-α er tengt við bólgusvar svo minnkandi magn þess í blóði bendir til minni bólgumyndunar í líkamanum. Enginn þátttakanda tilkynnti um neikvæðar aukaverkanir á meðan meðhöndlun stóð.

Þessar niðurstöður benda ekki bara til þess að neysla á skordýrum er örugg heldur að hún getur beinlínis haft jákvæð áhrif á heilsuna. Sérstaklega á það við í löndum eins og vestulöndum þar sem skordýraprótín myndi að miklu leiti leysa af hólmi kjöt sem prótínuppsprettu. Mikil neysla á rauðu kjöti hefur nefnilega verið tengd við aukna áhættu á lífsstílstengdum sjúkdómum, meðal annars ýmsa bólgusjúkdóma.

Það er því deginum ljósara að við ættum að taka okkur saman í andlitinu, hætta þessum fordómum og fá okkur krybbu-koktiel í næsta jólaboði.