Mynd: Shutterstock

HIV er sennilega sú veira sem flestir jarðarbúa þekkja til. HIV stendur fyrir Human Immunodeficiency Virus og er hún svokölluð retróveira. Það þýðir að þegar veiran smitar einstakling laumar hún sínu eigin erfðaefni inn á litninga hýsilsins og nýtir svo hýsilfrumuna til að tjá erfðaefni sitt.

Með þessu móti hefur veiran komið sér svo rækilega fyrir í einstaklingnum að erfitt er að losna við hana úr erfðaefninu. Veiran getur þá legið í dvala en undir vissum kringumstæðum getur hún síðan sett af stað tjáningu á erfðaefni sínu svo fleiri veirur verða til. Dæmi um aðrar retróveirur eru herpes veiran sem m.a. veldur frunsum.

Eina leiðin er að stöðva veiruna áður en hún smitar

Þegar einstaklingur hefur smitast af HIV-veirunni er því ekki til nein meðferð sem losar einstaklinginn alfarið við veiruna. Hins vegar hefur sem betur fer orðið mikil framþróun í lyfjum sem halda veirunni í dvala svo ekki er mikið af veirunni í líkama smitaðs einstaklings. Þannig er einnig komið í veg fyrir að sá sem er smitaður fái alnæmi. Þegar á alnæmisstig er komið má segja að veiran hafi tekið yfir ónæmisfrumur hýsilsins svo þær geta ekki lengur varist sýkingum.  

Stöðug lyfjagjöf sem heldur veirunni í skefjum gefur þó aldrei sömu lífsgæði og voru til staðar áður en veiran smitaði einstaklinginn. Hugmyndir um að losna algjörlega við veiruna eru þó óraunhæfar vegna þess eiginleika veirunnar að innlimast í erfðaefni hýsilsins.

Þar að auki eiga ekki allir kost á því að fá lyf við veirunni. Lyfin geta verið dýr og þau þarf að nota reglulega. Aðstæður fólks geta verið mismunandi og því er ekki víst að lyfin nái til allra þeirra sem á þeim þurfa að halda. Þar af leiðandi er bóluefni besta og raunhæfasta leiðin til að stemma stigu við útbreiðslu HIV.

Eiginleikar HIV gera þróun bólunefnis erfiða

Hingað til hefur ekki tekist að þróa bóluefni gegn veirunni vegna þess hve hratt hún þróast. Jafnvel innan sama einstaklings eru til dæmi um um tugi mismunandi HIV stofna, svo hratt stökkbreytist veiran.

Þessi eiginleikar veirunnar hafa gert leitina að bóluefni að vandasömu verkefni. En eftir mikla vinnu virðist nú vera ljós við enda ganganna. Rannsóknarhópur á vegum National Institutes of Health í Bandaríkjunum hefur síðastliðin ár unnið að þróun bóluefnis sem hefur gefið góða raun og væntingar standa til að verði fljótlega prófað í mönnum.  

Hópurinn birti í síðasta mánuði grein í Nature Medicine, þar sem margra ára vinnu hópsins er lýst. Fjölmargar greinar hafa verið birtar til að lýsa rannsóknunum sem þarna eru teknar saman.

 Lyfið eða mótefnið sem hópurinn hefur unnið að er prótín sem er samruni þriggja mismunandi prótína frá veirunni. Með því að sprauta því í einstaklinga er ónæmiskerfi viðkomandi kynnt fyrir HIV-veirunni, eins og í hefðbundnum bólusetningum, svo ef viðkomandi smitast síðar á lífsleiðinni getur ónæmiskerfið brugðist við og drepið veiruna áður en hún nær að valda skaða.

Þau svæði sem lyfið líkir eftir eru veirunni mikilvæg til að bindast hýsilfrumu sinni og opna sér leið inn í hana. Þessir eiginleikar eru mjög mikilvægir fyrir veiruna, svo hún haldi eiginleikum sínum til að smita og fjölga sér. Þó veiran breytist hratt eru það þessi svæði sem breytast hægast vegna þess að þau eru veirunni svo mikilvæg. Það að nota þrjú mismunandi prótín frá veirunni gerir lyfið enn skilvirkara.

Rannsóknir í mönnum í lok árs

Vonir standa til að hægt verði að nota þetta samrunaprótín sem lyf við HIV, til að koma í veg fyrir að hún smiti einstaklinga sem telja sig útsetta fyrir veirunni eða jafnvel sem bóluefni gegn veirunni.

Fyrirhugað er að hefja rannsóknir á lyfinu í mönnum í lok þessa árs. Fyrri rannsóknir í músum, naggrísum og öpum gefa ástæðu til bjartsýni en dýrin gátu öll varist veirusmiti eftir meðhöndlun með lyfinu. Vonandi höfum við því brátt svar við þessari skæðu veiru sem mannkynið hefur barist við í tugi ára.

Fréttin birtist fyrst í tímariti og á vefsíðu Stundarinnar.