gummy-bear

Flest efni sem sett eru í matvöru hafa undirgengist gríðarlega margar rannsóknir til að staðfesta að öruggt sé að borða þær. Efni sem talin eru örugg fá sem dæmi svokölluð E-númer sem bera vitni um það að búið er að athuga hvort efnin geti verið skaðleg manninum. Við vitum þess vegna að efni sem bætt er útí matinn okkar án augljósar ástæðu skaða okkur ekki, en tilgangur efnanna er í mörgum tilfellum að breyta áferð matarins eða auka geymsluþol hans.

Framleiðendum ber svo skylda til að taka fram á umbúðum matvælanna hvaða efni hafa verið sett í matvælin. Á þessu er þó undantekning því ef efnið er í nægilega litlu magni í matvælunum þarf ekki að telja það upp sem innihaldsefni. Þetta á við um efni sem hafa verið kölluð nanoparticles eða nanóefni. Þau eru sem sagt svo lítill hluti matvælanna að það mælist í nanóeiningum.

Eitt þessara efna er títaníum díoxíð, en nokkuð algengt er að nota það efni í nánast allt, þ.m.t. málningu, tannkrem og nammi. Í nýrri rannsókn sem unnin var við Binghamton University voru áhrif títaníum díoxíðs skoðuð. Í rannsókninni var notast við manna-ristilfrumur. Ætið sem frumurnar fengu var annars vegar blandað með títaníum díoxíð í stutta stund, þ.e. 4 klst eða til lengri tíma, þ.e. í 5 daga.

Í ljós kom að þegar frumurnar voru lengi í snertingu við efnið hafði það víðtæk áhrif á frumurnar. Frumurnar töpuðu að hluta virkni sinni til að halda úti óæskilegum efnum og sýklum, þær sýndu nokkurs konar stressviðbrögð og töpuðu auk þess getu sinni til að taka upp efni á borð við sink og járn.

Samkvæmt þessari rannsókn ættum við því að reyna að takmarka eins og við getum inntöku okkar á títaníum díoxíði. Efnið er nokkuð algengt í matvælum en með því að sniðganga að miklu leiti unna matvöru og sælgæti þá takmörkum við inntöku okkar á efninu til muna.

Þó viðbrögð frumnanna sem hér voru notaðar hafi verið stórvægileg er ekki hægt að fullyrða um hvort áhrifin væru þau sömu ef um frumur innan líkama væri að ræða. Þessar niðurstöður sýna okkur þó mikilvægi þess að skoða áhrif allra efna sem notuð eru í matvæli, alveg sama í hvaða magni þau eru.