norway-rat

Til þess að meðhöndla og stöðva útbreiðslu sjúkdóma er mikilvægt að þekkja uppruna þeirra. Möguleikarnir eru þó mýmargir og getur verið gríðarlega erfitt að átta sig á því hver uppruni sjúkdóms er. Þó er vitað að næstum allir smitsjúkdómar sem hrjá mannkynið eiga uppruna sinn í dýrum. Ný rannsókn sýnir fram á þá möguleika sem búa í því að nýta tæknina til að aðstoða okkur við að spá fyrir um faraldra í framtíðinni.

Í grein sem birt var í tímaritinu PNAS kemur fram að ný tækni getur greint dýrategundir sem bera með sér sjúkdóma með allt að 90% áreiðanleika. Algóritminn sem notaður var var búinn til með því að skoða 217 nagdýrategundir sem vitað er að geta borið með sér sjúkdóma sem geta sýkt menn og 2.000 tegundir sem bera ekki með sér slíka sjúkdóma, svo vitað sé. Rannsóknarhópurinn skoðaði gögn um 86 breytur, til dæmis útbreiðslu tegunda, hversu hratt tegundir fjölga sér og líkamsstærð þeirra.

Í ljós kom að tegundir sem lifa stutt, fjölga sér hratt og hafa mikla útbreiðslu eru líklegastar til að valda skaða. Ekki er vitað nákvæmlega hvers vegna það er en höfundarnir benda á að það gæti verið vegna þess að sjúkdómunum tekst ekki að drepa dýrið áður en því tekst að fjölga sér.

Algóritmi sem þessi gæti hjálpað vísindamönnum að greina hvar er líklegt að sjúkdómafaraldrar hefjist með því að skilgreina heita reiti fyrir sjúkdóma en frekari rannsókna er þörf áður en það verður að veruleika.

Heimildir: Science og Popsci